Nýr og endurhannaður BMW X3 Plug-in Hybrid verður kynntur í sýningarsal BMW við Sævarhöfða á morgun laugardaginn 25. janúar milli kl.12 og 16.
Þessi nýja gerð fjórhjóladrifnu tengiltvinnútgáfunnar er byggð á nýjum undirvagni, bíllinn stærri en fráfarandi gerð, hærri undir lægsta punkt og fer nú allt að 90 km á rafhlöðunni við bestu aðstæður.
Meðal helstu annarra breytinga má nefna að bensínvélin hefur verið uppfærð og ásamt rafmótornum er nýr X3 tæplega 300 hestöfl og 6,2 sek. úr kyrrstöðu í 100 km/klst. Þá er ytra útlit bílsins talsvert breytt, þar sem endurhannað nýrnagrillið með innbyggðum útlínuljósum og tvöföldum ljósmerkingum á framljósum, fanga athyglina.
Að auki hafa hliðar breyst með nýrri ásýnd, m.a. innfelldum húnum auk þess sem rafdrifni afturhlerinn og ljósin þar hafa fengið nýja hönnun svo nokkuð sé nefnt.
Farþegarýmið í nýjum X3 hefur einnig tekið stakkaskiptum hvert sem litið er. Sætin eru ný og framleidd úr vönduðum endurnýjanlegum efnum, stjórn gírskiptingar og annarra aðgerða á láréttum miðjustokkinum hafa fengið nýja hönnun og kominn er einn tæplega 15“ samfelldur skjár fyrir mælaborð, afþreyingu og stjórn margvíslegra annarra aðgerða er varða bílinn. Einnig hefur fótarými og geymslurými verið aukið í bílnum ásamt valmöguleikum fyrir mismunandi lýsingu í farþegarýminu.
Snjöll tækni léttir lífið
Snjalltæknin hefur sömuleiðis verið aukin verulega í nýjum X3. Þannig skilur nú stjórntölvan mun fleiri raddskipanir en áður, afþreyingarmöguleikar hafa verið auknir með meira innbyggðu gagnamagni sem veitir aðgang að úrvali appa fyrir streymisveitur, m.a. með bíómyndum.
Með BMW símaappinu, sem er beintengt við bílinn, má einnig athuga ástand bílsins, svo sem vélarolíunnar og fleiri þætti, panta þjónustuskoðun og fleira. BMW X3 Plug-in Hybrid er í boði í tveimur útbúnaðargerðum; 30e og 30e M-Sport.