Þriðja kynslóð Dacia Duster var frumsýnd nýverið. Duster, sem nú kemur í fyrsta sinn með mildri tvinntækni við bensínvél, hefur síðastliðin sex ár verið mest seldi jepplingurinn í Evrópu.
Duster mætir nú til leiks sem meiri torfærubíll sem hefur skarpari og ögn jeppalegri útlínur án þess þó að hann hafi tapað upphaflegum megineinkennum sínum þegar kemur að ytri og innri ásýnd.
Til að byrja með verða tvær fjórhjóladrifnar gerðir í boði af Duster; Express og Extreme, sem báðar eru beinskiptar við 130 hestafla bensínvél og milda tvinntækni (Mild Hybrid) og með meðaleyðslu upp á um 6 l/100km.
Í janúar kemur svo þriðja gerðin, Duster Extreme Hybrid, sem er sjálfskiptur með 141 hestafla bensínvél og framhjóladrifinn og að öðru leyti með sama útbúnaði og Extreme.
Í öllum gerðum Duster fylgir fullkomið leiðsögukerfi sem uppfærist sjálfkrafa í rauntíma á rúmlega 10 tommu skjá, 3D Arkamys hljóðkerfi, upphituð framsæti, bakkmyndavél, hraðaskiltalesari og fjölmargt fleira.