Það var mikið um að vera í Nekkehal sýningarhöllinni í Mechelen í Belgíu nýverið en þangað var bílablaðamanni Viðskiptablaðsins boðið til að skoða nýjustu Toyota og Lexus bílana sem frumsýndir voru. Bílablaðamenn víðs vegar að úr heiminum voru þar samankomnir til að skoða herlegheitin.

Þótt Toyota bílar hafi verið mjög áberandi á kynningunni í Mechelen fékk einn Lexus bíll að læðast með. Og hann læddist nú ekki beint því hér var á ferðinni nýr Lexus ES lúxusbíll sem naut athyglinnar sem hann fékk í höllinni.

Lexus er sem kunnugt er lúxusarmur Toyota þannig að þetta er jú sama fjölskyldan. Þetta er áttunda kynslóð Lexus ES og hughrifin voru mikil hjá fjölda blaðamanna, m.a. undirritaðs, þegar bílnum var ekið inn á sviðið. Nú er bíllinn búinn enn meiri þægindum og lúxus og samt var hann nú ekkert slor áður. Nýjum hugbúnaði fyrir multi-media kerfið hefur verið bætt við.

Lexus ES mun nú koma bæði sem tvinnbíll og hreinn rafbíll þannig að það mun án efa höfða vel til kaupendahópsins sem getur þá valið á milli aflrása. Lúxusbíllinn verður bæði í boði með framhjóla- og fjórhjóladrifi.

Ytra útlit bílsins ber merki um nýja hönnun Lexus sem verður áberandi á komandi árum og væntanlega í öðrum bílum lúxusframleiðandans. Þegar sest var inn í bílinn var augljóst að um umtalsverðar breytingar er að ræða í innanrýminu. Mikið er lagt í hönnun stjórnrýmis og upplifun ökumanns og farþega. Nýstárleg hönnun er á rofum í stjórnborði. Þá hafa öryggis- og aksturskerfi bílins verið bætt enn frekar.

Nánar er fjallað um málið í sérblaði Viðskiptablaðsins, Bílar. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.