Kennsla mun hefjast á nýrri námsbraut við iðn- og tæknifræðideild Háskólans í Reykjavík í haust. Um er að ræða eins árs hagnýtt diplómanám sem ætlað er að veita nemendum hagnýta þekkingu á sviði upplýsingatækni í mannvirkjagerð (BIM – Building Information Modeling).
„Iðn- og tæknifræðideild HR leitast við að vera í góðum tengslum við atvinnulífið og bregðast við þörfum þess hverju sinni. Stofnun þessarar nýju brautar er einn liður í því,“ segir Hera Grímsdóttir, forseti iðn- og tæknifræðideildar HR.
Að hennar sögn hefur atvinnulífið verið að kalla eftir starfsfólki með þekkingu á upplýsingatækni í mannvirkjagerð.
„Stefnt er að því að innan fárra ára verði það meginregla að nota upplýsingalíkön við byggingu allra stærri opinberra mannvirkja á Íslandi.“
Nám í upplýsingatækni í mannvirkjagerð er sérstaklega ætlað þeim sem starfa í byggingariðnaði og við mannvirkjagerð. Má sérstaklega nefna byggingarstjóra, byggingariðnfræðinga, tæknifræðinga, verkfræðinga, arkitekta og byggingafræðinga.
Umsækjendur þurfa að hafa lokið burtfararprófi í iðngrein á byggingarsviði, stúdentsprófi eða lokaprófi úr Háskólagrunni HR. Í náminu er stefnt að því að nemendur öðlist reynslu, þekkingu og færni í að leysa flókin og þverfagleg vandamál í mannvirkjagerð og stjórna verkefnum með upplýsingalíkönum.
Notkun stafrænna þrívíðra upplýsingalíkana er aðferðafræði við hönnun mannvirkja sem hefur verið að að ryðja sér til rúms hér á landi að því er segir í tilkynningu skólans. Upplýsingalíkön í mannvirkjagerð eru sögð auka gæði hönnunar og framkvæmda og stuðla að hagkvæmari byggingum. Þá nýtist upplýsingalíkön við rekstur mannvirkja á líftíma þeirra.