Bernd Reichart, nýr forstjóri fyrirtækisins sem fer fyrir evrópsku Ofurdeildinni í fótbolta gerir ráð fyrir að keppnin fari af stað eftir þrjú ár. Í viðtali við Financial Times segist hann tilbúin til að skoða allar mögulegar útfærslur á deildinni sem náði ekki brautargengi á síðasta ári eftir mikil mótmæli í knattspyrnuheiminum.
Vorið 2021 var mikið fjallað um að stærstu knattspyrnufélög Evrópu væru langt komin í viðræðum um að setja á fót ofurdeild. Eftir mikið mótlæti drógu öll félög sem áttu aðild að henni stuðning sinn til baka, að undanskildum stórveldunum Real Madrid, Barcelona og Juventus.
A22 Sports Management, fyrirtækið sem fer fyrir ofurdeildarfélögunum, hyggst endurvekja hugmyndina og réð nýlega hinn þýska Bernd Reichart sem forstjóra. Í tilkynningu um ráðningu Reichart sagði A22 að fyrsta verkefni hans sé að eiga „virkt og opið samtal“ við knattspyrnuheiminn með það í huga að búa til sjálfbært viðskiptalíkan fyrir evrópskan fótbolta.
„Við viljum hafa samband við hagaðila evrópska knattspyrnusamfélagsins og víkka út þessa sýn. Aðdáendurnir munu meira að segja hafa samúð með hugmyndinni,“ segir Reichart við FT. „Þetta er nýtt upphaf. Útfærslan mun aldrei vera hindrun.“
Hugmyndin var að tólf evrópsk stórlið myndu yfirgefa Meistaradeild UEFA og fá öruggan farseðil í Ofurdeildina. Með þessu fyrirkomulagi yrði leikjum á milli stærstu liðanna fjölgað. Aðstandendur Ofurdeildarinnar viðurkenna þó að fyrirkomulagið þurfi að taka breytingum í átt að opnari keppni ef hún á að ná brautargengi.
„Það er endurmat í gangi. Það er klárlega stefnt að opnari fyrirkomulagi og búið er að slá hugmyndum um varanlega aðild að deildinni af borðinu,“ segir Reichart.
„Við viljum sjá hvort það sé breiðari eining um þau vandamál sem evrópsk knattspyrna glímir nú við.“