Fjölmargar áhugaverðar nýjungar litu dagsins ljós á árlegu tæknisýningunni í Las Vegas sem nú er nýlokið. Sýningin var haldin á Mandalay Bay hótelinu.

Um 4.500 fyrirtæki frá meira en 160 löndum sýndu ýmsar vörur eða allt frá ofursnjöllum blómapottum til sjálfkeyrandi dráttarvéla. Um 140 þúsund gestir sóttu CES-sýninguna en CES stendur fyrir Consumer Electronic Show.

Hér er stikklað á stóru og fjallað um nokkrar tækninýjungar sem vöktu athygli á sýningunni.

Honda O

Honda O var valinn besti bíll sýningarinnar af CNET. Þessi rafmagnsbíll er enn í þróun en gert er ráð fyrir honum á markað á næsta ári. Honda O verður með um 500 kílómetra drægni en ein helsta nýjungin er að forsvarsmenn Honda fullyrða að hægt verði að fullhlaða rafhlöðuna, sem er örþunn miðað við aðrar á markaðnum í dag, á 10 til 15 mínútum. Reynist þetta rétt verður þetta algjör bylting í rafbílaheiminum.

Honda O er auðvitað hlaðinn allskonar tæknibúnaði. Í bílnum verður gerivigreindarörgjörvi og ASIMO OS stýrikerfi, en stýrikerfið dregur nafn sitt af samnefndu vélmenni, sem Honda hefur þróað um árabil. Bíllinn verður með þriðja stigs sjálfkeyrslubúnaði (e. level 3 self-driving).

Sjálfkeyrandi dráttarvél

Bandaríska fyrirtækið John Deere hefur undanfarin ár verið að þróa sjálfkeyrandi dráttarvélar. Sú fyrsta kom á markað fyrir þremur árum en það er vél sem getur gert fremur auðveld verkefni eins og til dæmis að plægja akur.

Á sýningunni var önnur kynslóð sjálfkeyrandi dráttarvéla kynnt en þær eiga að geta framkvæmt miklu flóknari verkefni í landbúnaði enda hefur tækninni fleygt fram á síðustu árum. Önnur kynslóðin verður til dæmis búin 16 myndavélum, sem nema umhverfið og öflugum skjákortsörgjörva frá NVIDIA. Bændur munu síðan gefið dráttarvélinni skipanir í gegnum smáforrit í síma.

Stækkanlegur tölvuskjár

Tölvufyrirtækið Lenovo kynnti fartölvu, Lenovo ThinkBook Plus Gen 6 Rollable, með stækkanlegum skjá. Hægt er að stækka skjáinn úr 14 tommum í 16 tommur með takka á lyklaborðinu eða með því að beina höndinni að skjánum og færa hana upp eða niður.

Sveigjanlegur skjár

Suður-Kóreska fyrirtækið LG kynnti nýjan tölvuskjá, LG UltraGear GX9. Skjárinn er búinn hinni framsæknu OLED-myndtækni, sem þýðir að myndin er gríðarlega skörp og birtuskilin í sérflokki. Það sem helst vakti þó athygli er að hægt er að sveigja skjáinn, þannig að annaðhvort er hægt að hafa hann beinan eða kúptan.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu, sem var að koma út. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.