Næstkomandi miðvikudag mun tæknirisinn Apple halda sinn árlega iPhone-kynningarfund, þar sem farsímar haustsins verða kynntir. Ekkert hefur verið gefið út opinberlega um eiginleika nýju símanna, en eins og vanalega er enginn skortur á orðrómum og lekum.
Tæknifjölmiðillinn The Verge tekur saman helstu orðrómana og líkindi þess að þeir reynist réttir.
Hóflegar breytingar
Nánast öruggt þykir að nýja flaggskipið verði uppfærð en lítið breytt útgáfa að iPhone X, sem var ansi stórt stökk þegar hann kom út í fyrra, hugsanlega kallaður iPhone XS, eins og 3GS, 4S, 5S, og 6S, sem allir voru nánast óbreyttir í útliti frá fyrirrennurum sínum. Örgjörvinn verður eflaust hraðari, vinnsluminnið hugsanlega meira, og myndavélin ný, en grundvallarhönnunin sú sama.
Stóri bróðir
Annað sem þykir næsta víst er að fram á sjónarsviðið stígi plús-útgáfa af flaggskipinu: iPhone XS+. Orðið á götunni er að hann muni skarta 6,5 tommu skjá, töluvert stærri en þær 5,8 tommur sem prýða iPhone X, og koma mjög líklega til með að prýða iPhone XS. Síminn verður líklega að flestu leyti alveg eins og litli bróðir að innan, nema hvað rafhlaðan verður nánast örugglega stærri.
Ódýrari útgáfa
Þessi orðrómur er ekki jafn vel staðfestur og þeir fyrir ofan, en þó er talið nokkuð líklegt að ódýrari útgáfa með sömu hönnun og iPhone X verði gefin út, með 6,1 tommu LCD skjá í stað OLED, og hugsanlega úr ódýrara efni en stálið sem umlykur hliðar iPhone X.
Nýir litir
XS og XS+ útgáfurnar verða nánast örugglega fáanlegar gulllitaðar, sem lengi vel var búist við að kæmi fyrir iPhone X, en myndum af litnum hefur þegar verið lekið. Þá er talið líklegt að ódýrari útgáfan verði til í enn fleiri litum.
3D Touch kastað fyrir úlfana
Þessi er langt því frá staðfestur, en bent hefur verið á að 3D Touch hafi aldrei náð almennilegu flugi, og Apple hafi ekki notað það mikið nýlega, og að endalok þess myndu gera símana ódýrari í framleiðslu.
Apple gefst upp fyrir yfirburðum USB-C
Ekki að fara að gerast. Eins mikið og því yrði eflaust fagnað af öllum þeim sem ekki eiga dýra Lightning-tengda aukahluti, þykja svo til engar líkur á því að Apple skipti út Lightning-tengjum sínum fyrir hið sífellt útbreiddara USB-C sem flestar nýjar fartölvur og Android-farsímar skarta í dag. Þú getur því ekki fengið að hlaða nýja iPhone-inn heima hjá Android-vini þínum ennþá.
Endurkoma fingrafaraskannans
Áður en iPhone X var afhjúpaður voru tvær kenningar um hvernig notendur símans yrðu látnir auðkenna sig eftir hvarf heim-takkans, sem innihélt fingrafaraskannann: andlits-auðkenning, eða fingrafaraskanni byggður inn í skjáinn sjálfan. Í iPhone X fór Apple fyrrnefndu leiðina, og engar líkur virðast vera taldar á að sú tækni verði fjarlægð, enda kynnt sem mikil bylting í fyrra og eflaust farið í hana töluverð vinna.
Kínverski símaframleiðandinn Vivo gaf hinsvegar út fyrsta símann með fingrafaraskanna innbyggðan í skjáinn í janúar síðastliðinn, svo tæknin er nú formlega komin fram á sjónvarsviðið. Sumir sjá því fyrir sér að Apple gæti bætt slíkri tækni við, og krafist bæði andlits- og fingrafaraauðkenningar. Þetta þykir þó enn sem komið er afar ólíklegt, en það er aldrei að vita nema fingrafarið snúi aftur á einn eða annan hátt á næstu árum.
Penni-Ananas-EplaPenni?
Samsung og fleiri keppinautar Apple hafa lengi látið stafrænan penna fylgja með stærstu símum sínum, eins og Samsung Note línunni. Í september 2015 gaf Apple út iPad Pro spjaldtölvuna, og samhliða henni Apple Pencil, en hann virkar bara með iPad (2018 útgáfunni) og iPad Pro.
Bent hefur verið á að stærri útgáfa iPhone X, sem fjallað er um hér að ofan, verði með stærsta skjá sem sést hefur á síma frá Apple. Raunar yrði sá 6,5 tommu skjár sem búist er við stærri, horn-í-horn, en skjárinn á nýjasta Samsung Note símanum, og því komin sterk rök fyrir því að bjóða stuðning við Apple Pencil, eða gefa út aðra útgáfu fyrir síma. Þetta þykir þó ólíklegt með næsta síma, svo við fáum líklega ekki að sjá Pikotaro kynna nýjan penna á miðvikudaginn.
Nýr iPhone SE
iPhone SE var kynntur samhliða iPhone 6S haustið 2016, fyrir þá sem hugnaðist ekki stærðarstökkið sem fylgdi iPhone 6. Hann hefur hinsvegar ekki verið uppfærður síðan, og er kominn nokkuð til ára sinna í hinum síbreytilega heimi farsíma. Það hefur hinsvegar ekkert heyrst um hann nýlega, svo ef til stendur að endurnýja hann, hefur Apple tekist ansi vel að halda því leyndu.