Land Cruiser 250 verður til sýnis í fyrsta sinn á Íslandi um helgina kemur en sá jeppi tekur við krúnunni af Land Cruiser 150 seinna á árinu eftir 14 ára keyrslu. Forsýning á Land Cruiser 250 og sögusýning í Toyota Kauptúni verður laugardaginn 2. mars kl. 12 – 16.

Fyrsta sýningareintakið af Land Cruiser 250 kom til landsins á dögunum en sá jeppi er á ferð um Evrópu til að kynna nýja kynslóð og stoppar hér á landi í aðeins örfáa daga.

Nýtt útlit Land Cruiser 250 er með greinilegri tilvísun í hefðina og 72 ára sögu þessa bíls sem hófst 1. ágúst 1951 þegar forverinn, Toyota BJ kom fram á sjónarsviðið. Með Land Cruiser 250 mun Toyota viðhalda sögu Land Cruiser sem afburða torfærubíls sem þekktur er fyrir styrk og áreiðanleika. Auk þess býður Land Cruiser 250 upp á öll þau þægindi sem sjálfsögð eru í daglegum akstri.

Land Cruiser 250 er með 2.8l dísilvél, 204 hestöfl, nýrri 8 þrepa skiptingu og nýju rafknúnu aflstýri. Dráttargetan hefur verið aukin í 3.500 kg. og jafnvægisstöng bílsins er nú hægt að stjórna frá mælaborði. 48V Mild Hybrid útgáfa er væntanleg 2025.