Góði hirðirinn, nytjamarkaður Sorpu, opnar á fimmtudaginn verslun við Hverfisgötu 94 í miðborg Reykjavíkur til viðbótar við verslunina í Fellsmúla 28 sem opnar á ný sama dag.

Með versluninni hyggst Góði hirðirinn auka þjónustu við íbúa og gesti í miðborginni. Í versluninni verður mikið úrval notaðra muna á borð við húsgögn, raftæki, bækur, vínylplötur, smávöru og margt fleira.

Þess má geta að ýmis félagasamtök reka nytjamarkaði víða um borg, þar á meðal Hjálpræðisherinn sem rekur Hertex til að mynda í miðborginni sem og í Mjódd og Grafarholti, Samhjálp í Ármúla og Kristniboðssambandið í Austurveri.

„Verslunin er um 300 fermetrar og vöruframboðið þverskurður af því sem hefur verið í boði hjá Góða hirðinum,“ segir Ruth Einarsdóttir, rekstrarstjóri Góða hirðisins. Hún segir eftirspurn eftir notaðri vöru hafa aukist mikið á undanförnum árum með aukinni umhverfisvitund. „Sérstaklega hjá ungu fólki en líka öðrum sem er umhugað um umhverfis- og loftslagsmál.“.

Verslunin er svokölluð uppspretta, betur þekkt sem pop-up verslun, sem sprettur upp á Hverfisgötu yfir jólin. Ef vel gengur er til skoðunar að verslunin verði áfram við Hverfisgötu 94.

Benda á bílastæðahús og strætóstoppistöð

Verslunin er sögð vel tengd almenningssamgöngum enda Hlemmur í allra næsta nágrenni og strætóbiðstöð beint á móti versluninni, þó eflaust sé ekki beint gert ráð fyrir því að stór húsgögn séu tekin heim með Strætó.

Um 400 bílastæði eru auk þess í tveggja mínútna göngufæri við verslunina í tveimur bílahúsum. Annars vegar á Vitatorgi við Lindargötu og hins vegar Stjörnuporti við Laugaveg. Þau sem ekki eiga heimagengt í verslanir Góða hirðisins við Fellsmúla 28 eða Hverfisgötu 94 geta verslað í nýrri netverslun fyrirtækisins sem Viðskiptablaðið greindi frá á dögunum .

Allar vörurnar í Góða hirðinum eru sagðar í tilkynningu vera í leit að framhaldslífi á nýju heimili eftir að fyrri eigendur skiluðu þeim til Góða hirðisins gegnum endurvinnslustöðvar Sorpu. Þannig eru þær sagðar draga úr sóun og jafnvel koma í veg fyrir losun gróðurhúsalofttegunda, svo hægt sé að gera jólagjafainnkaupin í góðri sátt við umhverfið og loftslagið.

Sama dag og verslunin opar, fimmtudaginn 19. nóvember komandi, opnar verslun Góða hirðisins við Fellsmúla 28 að nýju, en hún hefur verið lokuð undanfarið vegna samkomutakmarkana. Í báðum verslunum verður hámarksfjöldi viðskiptavina á hverjum tíma 10 manns til 1. desember. Allir viðskiptavinir verða að vera með grímu inni í verslunum Góða hirðisins.