Fimmta kynslóð aldrifna sportjeppans Santa Fe verður frumsýnd hér á landi um helgina. Bíllinn, sem nýlega kom á Evrópumarkað, hefur tekið algjörum útlitsbreytingum frá fyrri kynslóð.
Segja má að hann breyti að nokkru leyti núverandi reglum varðandi hönnun stórra jepplinga, því nú er t.d. leikur einn fyrir tvo að sofa í nýja bílnum. Til þess eru framsætin færð fram, sætisbök annarrar og þriðju sætaraðar felld niður í slétt gólfið, sem þá myndast, og eru þá rúmir 2,2 metrar að lokuðum afturhleranum.
Nýr Hyundai Santa Fe er með sæti fyrir sjö og er bíllinn í senn lengri, hærri og breiðari en fráfarandi kynslóð. Hér á landi verður hann í boði sjálfskiptur í tengiltvinnútgáfu með 253 hestafla bensínvél og rafmótor og veitir rafhlaðan bílnum 56 km drægni á rafmagni eingöngu.
Vegna meira rýmis, sjö sæta og fjölmargra tæknikosta og þæginda sem bíllinn býður hentar nýr Santa Fe enn betur en áður fjölskyldu- og útivistarfólki, m.a. vegna langboga á þaki sem eru meðal staðalbúnaðar og henta vel fyrir skíðafestingar og ferðabox. Við afturhurðar er svo handfang sem hægt er að leggja niður í lárétta stöðu til að stíga upp á og yfir á afturhjólið til að ná betur til farangursins á þakinu.
Snjöll tækni og betra aðgengi
Þegar sest er inn blasir við farþegarými sem hefur verið endurhannað frá grunni, m.a. með tveimur rúmlega 12" skjám, fyrir mælaborð og afþreyingu.
Öll sæti eru með hita og færanleg fram og aftur og hallanleg auk þess sem geymsluhólfið milli framsætanna er einnig opnanlegt fyrir aftursætisfarþega. Afturhurðirnar opnast í 90° gráður fyrir enn betra aðgengi inn og út úr bílnum og að sama skapi opnast stór rafknúinn afturhlerinn í lárétta stöðu fyrir betra aðgengi að farangri.
Gott úrval mismunandi innstungna er að finna milli framsæta og í hliðum framsætanna fyrir aftursætisfarþega auk tólf volta innstungu við þriðju sætisröð. Hægt er að nota síma til að ræsa bílinn með því að leggja hann í þar til gert stæði milli framsætanna. Þá er einnig hægt að nota símann til að læsa og aflæsa bílnum svo fátt eitt sé nefnt.