Nýr og uppfærður Subaru Forester e-Boxer Hybrid verður frumsýndur hjá BL á morgun milli 12-16. Um er að ræða bíl með tveggja lítra bensínvél og rafmótor sem skilar alls 134 hestöflum og 182 Nm togi.

Nýr Forester hefur þá tekið ýmsum útlits- og tæknibreytingum frá fráfarandi gerð og er í senn örlítið breiðari og lengri en fráfarandi gerð, en með jafnháa yfirbyggingu og auk þess sama ríflega lægsta punktinn eða 22 cm.

Að framan er kominn nýr framendi með nýrri svuntu, stærra og breiðara grilli og nýjum ljósabúnaði, sem einnig hafa verið endurnýjuð að aftan. Hliðarlínur eru breyttar, í stað 17" álfelga eru komnar 18" felgur á Premium og 19" á Lux, auk þess sem hliðarlínur bílsins eru mun skarpari og ákveðnari en áður sem gera bílinn í senn kraftlegri og jeppalegri.

Eins og í fyrri gerð er nýr Subaru Forester vel búinn staðalbúnaði á bæði öryggis- og þægindasviði. Komið er lyklalaust aðgengi að bílnum og þegar sest er inn er án efa helsta kennileitið nýr og stærri margmiðlunarskjár sem blasir við á uppreistum miðjustokknum.

Sætin eru með vönduðu áklæði, framsætin rafdrifin og upphitanleg hjá ökumanni og er afturhlerinn líka rafdrifinn svo fátt eitt sé nefnt. Auk 19“ álfelga kemur Forester Lux með leðursætum og með öllum sætum upphitanlegum.

Þá má að lokum nefna að Forester er búinn nýjustu uppfærslu hins margverðlaunaða EyeSight öryggiskerfis Subaru sem er samtvinnað öðrum öryggisbúnaði til að bregðast við margvíslegum óvæntum aðstæðum.

Forester hefur löngum notið vinsælda hér á landi frá árinu 1997, ekki síst meðal landsbyggðar- og útivistarfólks vegna góðs öryggisbúnaðar, seiglu við erfiðar aðstæður og góðrar endingar. Alls hafa vel á fjórða þúsund Forester verið skráðir hér á landi frá upphafi.