Fyrir nokkrum árum hófust framkvæmdir við nýtt veiðihús við Miðfjarðará í Bakkafirði og er þeim nú lokið. Nýja húsið er um tveimur kílómetrum ofar í ánni en það gamla.

Fyrir nokkrum árum hófust framkvæmdir við nýtt veiðihús við Miðfjarðará í Bakkafirði og er þeim nú lokið. Nýja húsið er um tveimur kílómetrum ofar í ánni en það gamla.

„Nýja húsið er við ármót Miðfjarðarár og Litlu-Kverkár," segir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Six Rivers, sem er með ána á leigu.

„Nýja veiðihúsið er um 450 fermetrar og í því eru fjögur herbergi, þannig að ef það eru tveir saman á stöng þá geta veiðimenn haft herbergi útaf fyrir sig," segir Gísli en einungis er veitt á tvær stangir í ánni. „Vilji menn hafa þjónustu í húsinu þá er öll aðstaða fyrir kokk og þjónustufólk til staðar. Það er sem sagt lítil starfsmannaaðstaða í húsinu en leiðsögumaðurinn er í gamla veiðihúsinu.“

Nýja veiðihúsið hefur verið fallega innréttað.
Nýja veiðihúsið hefur verið fallega innréttað.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Spurður hvers vegna húsið sé svona stórt svarar Gísli: „Það er góð spurning. Hvert herbergi er um 30-32 fermetrar, með snyrtingu en til samanburðar eru herberginu í húsinu við Selá um 26. Síðan er gott eldhús, stofa, vöðlugeymsla, geymslurými og tvö starfsmannaherbergi. Samtals eru herbergin því tæplega 200 fermetrar — þetta er fljótt að telja."

Gamla veiðihúsið við Miðfjarðará í Bakkafirði.
Gamla veiðihúsið við Miðfjarðará í Bakkafirði.
© Einar Falur (Einar Falur)

„Hafa verður í huga að stofa er alltaf svipað stór sama hvort veiðihúsið er við tveggja, fjögurra eða jafnvel sex stanga á. Það sama á í raun við um eldhús, því það þarf að koma tækjum þar fyrir og þess háttar. Það er sáralítill munur á fermetrafjölda fyrir stofu og eldhús í þessum veiðihúsum. Það er ekki helmingi minni stofa fyrir tvær stangir eða fjórar stangir."

„Við erum sannfærðir um það að tveggja stanga laxveiðiá, með frábæru nýju veiðihúsi á þessum afskekkta stað á landinu, muni höfða til veiðimanna. Sífellt fleiri veiðimenn sækja orðið í það að fá að vera í friði. Það eru verðmæti fólgin í því. Það er sem dæmi ekki símasamband í Selá. Ég kannaði það á meðal kúnna árinnar hvort þeir vildu að sett yrði GSM-loftnet á svæðið en sú hugmynd var felld. Það hafði engin áhuga á því.“

Blaðið Veiði fylgdi Viðskiptablaðinu en í því er fjallað um margt forvitnilegt nú þegar veiðitímabilið er komið af stað.