Bílskúrarnir hjá mörgum þeirra eru eins og rándýrir dótakassar. Við tókum saman bílaflotann hjá sjö frægum söngvurum og þar leynast sannarlega margar glæsikerrur.

Frank Ocean
Tónlistarmaðurinn Frank Ocean hefur unnið tvenn Grammy-verðlaun á ferlinum. Tónlistargagnrýnendur hafa lýst honum sem brautryðjanda jaðar R&B tónlistarstefnunnar. Hann byrjaði ferilinn með hljómsveitinni Odd Future, en gaf út fyrsta albúmið sitt Nostalgic, Ultra árið 2011. Árið 2016 gaf hann svo út plötuna Blonde, sem er vinsælasta platan hans.
Söngvarinn er áhugasamur um bíla en hann á lag sem heitir White Ferrari, þó svo að hann eigi ekki hvítan Ferrari. Plötuumslagið á Nostalgic, Ultra sýnir hinn sígilda appelsínugula BMW E30 M3, sem er í hans eigu. Hann er mikill BMW áhugamaður, en hann á nokkra BMW, en svo á hann einnig Porsche GT3 og Tesla Model X. Gersemin í safninu hans er þó McLaren 675LT, búinn 3,8 lítra V8 vél með tvöfaldri túrbínu, sem skilar 666 hestöflum og er aðeins 3 sekúndur frá 0-100 km/klst.

Bruno Mars
Söngvarinn Bruno Mars er einn heitasti tónlistarmaðurinn í dag, en hann er með yfir 140 milljónir mánaðarlega hlustendur á Spotify. Hann sló fyrst í gegn árið 2009, sem gestasöngvari í laginu Nothin’ on You eftir rapparinn B.o.B. Bruno hefur samið marga slagara síðan þá, þar má nefna lög eins og Uptown Funk, The Lazy Song og Die with a Smile. Árið 2016 vann hann sjö Grammy verðlaun, þar á meðal plötu og lag ársins.
Bílskúr söngvarans inniheldur bæði glæsikerrur og hógværari bíla, eins og 1988 Cadillac Allante, Cadillac CTS og Lamborghini Huracan EVO. Sá glæsilegasti í safninu er Rolls Royce Phantom, með 6,7 lítra V12 vél, 563 hestöfl og 5,8 sekúndur frá 0-100 km/klst.

Billy Joel
Söngvarinn og píanistinn William Martin Joel, þekktur sem Billy Joel, hefur átt farsælan feril síðan frá áttunda áratugnum. Billy hefur gefið út mörg fræg lög eins og Piano Man, Uptown Girl og New York State of Mind. Söngvarinn einblínir ekki á eina tónlistarstefnu, en hann hefur samið lög sem koma inn á margar stefnur, sem dæmi má nefna R&B, rokk og dægurtónlist. Billy hefur verið tilnefndur til 23 Grammy-verðlauna og unnið sex þeirra, ásamt fleiri verðlaunum.
Töffarinn er mikill bíla- og mótorhjólaáhugamaður, en ólíkt öðrum stjörnum sem eiga nýlegri lúxus og sport bíla, þá hefur hann meiri áhuga á eldri og klassískari bílum. Í bílskúrnum hans má finna 1973 Audi Fox og 1973 Volkswagen bjöllu, en það má líka finna mótorhjól eins og 1967 Moto Guzzi V7 og 1962 Triumph Tiger. Hann á einnig fallegan 1962 Jaguar Mark II, búinn 3,8 lítra vél, sem skilar 220 hestöflum og er rétt undir 9 sekúndur frá 0-100 km/klst.

The Weeknd
The Weeknd er vinsæll tónlistarmaður frá Kanada. Hann byrjaði að gefa út R&B tónlist nafnlaust árið 2009, en færði sig seinna yfir í dægurtónlist. Hann hefur unnið fjögur Grammy-verðlaun auk ótal annarra verðlauna. Vinsælustu lögin hans eru Save Your Tears, Starboy og Blinding Lights. Það má finna nokkrar bílatilvitnanir í lögum hans. Í laginu Starboy syngur hann um McLaren P1, sem hann fékk svo seinna í gjöf. Svo vitnar hann einnig í Mazda RX-7 FC í laginu Party Monster.
The Weeknd er smekkmaður þegar kemur að bílum en hann virðist elska lága hraðskreiða ofurbíla. Bílasafnið hans inniheldur marga dýra og glæsilega bíla eins og McLaren P1, Porsche 911 Carrera og Lamborghini Aventador SV Roadster. Mest grípandi bíllinn er MercedesMaybach G650 Landaulet, en einungis 99 slíkir bílar voru framleiddir. Það er urrandi 6 lítra, V12 vél með tvöfaldri túrbínu, 621 hestöfl og er 5,3 sekúndur frá 0-100 km/klst.

Elton John
Tónlistarsnillingurinn Elton John kemur frá Englandi en tónlist og sýningarmennska hans hefur haft varanleg áhrif á tónlistariðnaðinn. Elton hefur unnið ein Emmy-verðlaun og fimm Grammy-verðlaun auk ótal annarra viðurkenninga. Vinsælustu lögin hans eru I’m Still Standing, Rocket Man og Your Song. Hann gaf út lagið Cold Heart með Dua Lipa og PNAU sem hefur slegið í gegn. Glæsileiki og glamúr hefur alltaf verið stór hluti af ímynd Eltons og það endurspeglar bílana hans vel. Hann elskar breska bíla eins og James Bond.
Elton á aðallega klassíska bíla. Í bílskúrnum hans má finna 1963 Rolls Royce Silver Cloud III, 1997 Aston Martin V8 Vantage V550, 1965 Jaguar XKE Roadster og reyndar einn ítalskan 1972 Ferrari Daytona 365 GTB/4. Sá flottasti er Jaguar XJ220, árgerð 1993, búinn 3,5 lítra V6 vél með tvöfaldri túrbínu. Vélin skilar 542 hestöflum og bíllinn er eigungis 3,6 sekúndur frá 0-100 km/klst.

Harry Styles
Söngvarinn Harry Styles er áhrifamikill í nútíma dægurtónlist. Ferillinn hans byrjaði með hljómsveitinni One Direction sem tók þátt í bresku tónlistarkeppninni X Factor. Hljómsveitin var gríðarlega vinsæl en klofnaði árið 2016 og fóru allir hver í sína átt. Síðan þá hefur Harry gefið út marga slagara eins og As It Was, Watermelon Sugar og Adore You. Þriðja plata söngvarans, Harry’s House, vann Grammy-verðlaun og sló í leiðinni nokkur önnur met.
Söngvarinn hefur áhuga á bílum og er með skemmtilegt safn, en hefur sérstakan áhuga á klassískum bílum. Í bílskúrnum má finna glæsilega og skemmtilega bíla eins og Audi R8 Coupe, Mercedes Benz 230 SL og Jaguar E-Type Roadster. Af mörgum flottum í safninu hans þá fær Ferrari California sviðsljósið, en bíllinn er búinn 4,3 lítra V8 vél, 452 hestöfl og er 3,8 sekúndur frá 0-100 km/klst.

Kendrick Lamar
Ameríski rapparinn, Kendrick Lamar, er búinn að vera mikið í sviðsljósinu undanfarið. Hann er talinn vera einn sá áhrifamesti í hip-hop senunni og besti rappari allra tíma. Kendrick komst á kortið árið 2012 með plötunni Good Kid, M.A.A.D City, sem var gríðarlega vinsæl. Eftir aðra plötuna gaf hann svo tvær aðrar mjög vinsælar, To Pimp a Butterfly og Damn. Nýjasta platan hans heitir GNX, en hann keypti sér 1987 Buick GNX á svipuðum tíma og platan kom út.
Vinsælustu lögin hans eru Humble, Not Like Us og All The Stars. Hann hefur unnið til ótal verðlauna, m.a. 22 Grammy-verðlaun. Með farsælum ferli koma fallegir bílar, en rapparinn á skemmtilegt safn af sport og lúxus bílum, en einnig klassískum. Í safninu má finna 1964 Chevy Impala, BMW i8 og Lamborghini Urus. Rapparinn á líka glæsilegan Mercedes Benz G-Wagon, búinn 4 lítra V8 vél með tvöfaldri túrbínu, 577 hestöfl og er 5,8 sekúndur frá 0-100 km/klst.