Hugmynd um stofnun evrópskrar ofurdeildar, sem ekki var hægt að falla úr að bandarískri fyrirmynd, hrundi eins og spilaborg þegar hún mætti andstöðu leikmanna og stuðningsmanna. Auknar þátttöku- og útsendingarréttartekjur, sem í þokkabót yrðu stöðugri en áður þekkist, virðast vera gulrótin sem stórskuldug félögin þurftu til að láta til skarar skríða.
Það er óhætt að fullyrða að fréttir af fyrirhugaðri evrópskri ofurdeild hafi skekið knattspyrnuheiminn það sem af er viku. Orðrómur um deildina fór á flug síðasta sunnudag og síðla sama dag tilkynntu tólf lið að þau yrðu meðal stofnmeðlima. Sex þeirra eru ensk, það er Arsenal, Chelsea, Liverpool, Manchester-liðin tvö og Tottenham. Hinn helmingurinn skiptist jafn á milli Ítalíu og Spánar, erkifjendurnir frá Mílanó og Juventus frá fyrrnefnda landinu og Barcelona, Real og Atletico Madrid frá því síðarnefnda.
Meiri alvara en áður
Hugmyndir um evrópska ofurdeild eru ekki nýjar af nálinni en þær hafa reglulega poppað upp frá því fyrir aldamót. Vanalega gerist það þegar endursemja á um skiptingu tekna af Evrópukeppnum og fyrirkomulagi þeirra. Stærstu félögin, sem vanalega eru áskrifendur að farseðlum í þær, hafa þá reynt að skara eld að sinni köku og oftar en ekki fengið sínu framgengt. Vanalega hefur Evrópska knattspyrnusambandið (UEFA) látið eitthvað eftir þeim og ofurdeildin verið sett í salt um skeið.
Ýmislegt bendir þó til að nú hafi verið meiri alvara á ferð. Í fyrsta lagi má nefna að á mánudag, degi eftir að tilkynnt var um stofnun ofurdeildarinnar, kunngjörði UEFA nýtt fyrirkomulag Meistaradeildarinnar. Það á að taka gildi frá 2024 og felur í sér fjölgun leikja. Í annan stað hafa stjórnarmenn liðanna, sem að hinni nýju keppni standa, sagt sig frá trúnaðar- og stjórnunarstöðum í evrópskum knattspyrnusamtökum. Líklegt verður að teljast að þeir hafi með því brennt allar brýr að baki sér.
Þá lá fjármögnun frá JP Morgan, til að ýta keppninni úr vör, fyrir. Þar var á ferð fjögurra milljarða evra skuldabréf til 23 ára, með vöxtum á bilinu 2-3%. Bankinn er ekki ókunnur knattspyrnuheiminum en hann var til að mynda Glazer-fjölskyldunni innan handar árið 2003 þegar hún eignaðist Man Utd. Bankinn aðstoðaði Real Madrid einnig við 575 milljón evra fjármögnun við endurbætur á Santiago Bernabeu og aðstoðaði sömuleiðis Inter Milan og Roma við skuldabréfaútboð.
Faraldurinn neisti í púðurtunnuna
Ástæðan fyrir því að tímasetningin nú varð fyrir valinu ætti að blasa við enda hefur hún sett daglegt líf úr skorðum nú í rúmt ár. Áhrifa faraldursins gætti greinilega í tekjustreymi knattspyrnuliða enda var keppnum slegið á frest meðan fyrsta bylgjan stóð sem hæst.
Tuttugu tekjuhæstu lið álfunnar, samkvæmt samantekt Deloitte, veltu samanlagt um 8,2 milljörðum evra á síðasta tímabili en það var 12% lækkun frá tímabilinu 2018/19. Tapaðar tekjur af miðasölu og útsendingarrétti vega þar þyngst. Fallið var einna hæst hjá AC Milan en félagið afplánaði síðasta tímabil bann frá þátttöku í Evrópukeppnum fyrir brot gegn FFP-reglum UEFA (e. financial fair play). Tekjufall félagsins af fyrrnefndum tveimur liðum var um 40%.
Líkt og aðrir rekstraraðilar, sem urðu fyrir tekjufalli í faraldrinum, brugðu liðin á það ráð að draga saman seglin. Starfsfólki var sagt upp og í einhverjum tilfellum nýttu þau sér styrki og úrræði frá stjórnvöldum í hverju ríki fyrir sig. Í einhverjum tilfellum gáfu leikmenn afslátt á launum til sín. Þessu til viðbótar hefur verið lengt í lánum og afborgunum frestað.
Skuldastaða félaganna, sem mörg hver voru stórskuldug áður en faraldurinn skall á, hefur því síst batnað í kjölfar hans. Sé Tottenham til að mynda tekið sem dæmi, annálað fyrir rykfallna bikaraskápa og brostnar vonir, þá jukust heildarskuldir félagsins um rúmlega 240 milljónir punda milli 30. júní 2019 og 2020. Þar af voru skammtímaskuldir 550 milljónir punda en handbært fé um helmingi lægra. Umtalsverð velta félagsins gaf félaginu þó farmiða í keppnina þrátt fyrir titlaþurrð. Þá er viðbúið að heildarskuldir Real Madrid ríflega tvöfaldist á næstu þremur árum samhliða endurbótum á heimavelli liðsins. Alls nema heildarskuldir liðanna tólf, sem að keppninni standa, um 7,4 milljörðum punda. Þá er ótalin 1,4 milljarða punda skuld eignarhaldsfélags Chelsea til eiganda síns, Roman Abramovich.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .