Og Vodafone og Research in Motion (RIM) hafa tilkynnt um áform um að bjóða farsímanotendum Og Vodafone á Íslandi samskiptatækið BlackBerry frá Vodafone. Sem samstarfsaðili Vodafone hefur Og Vodafone einkarétt á Blackberry Vodafone vörumerkinu hér á landi og mun bjóða viðskiptavinum sínum upp á BlackBerry 7290 og BlackBerry 7100v þráðlausan búnað.

Í tilkynningu frá Og Vodafone segir að BlackBerry sé fremsta þráðlausa lausnin á markaðnum og miðar að því að halda þeim sem eru mikið á ferðinni í stöðugum tengslum við viðskiptavini og samstarfsmenn auk þess að bjóða aðgang að upplýsingum á skilvirkan og þægilegan hátt. Og Vodafone getur með BlackBerry viðskiptalausninni (BlackBerry Enterprise Solution) boðið viðskiptavinum sínum upp á aðgang að tölvupósti (þ.m.t. viðhengjum) sem er öruggur, stöðugur, þráðlaus og byggir á snertilausn sem og samþætta þjónustu fyrir síma, vafra, dagbók og aðrar upplýsingar.