Síminn og Actavis Group hafa undirritað samning um heildarfjarskiptaþjónustu til þriggja ára. Samningurinn felur í sér að Síminn sjái um öll fjarskiptamál samstæðunnar. Innifalið í því eru farsímaþjónusta, fastlína og fjarvinnulausnir Símans ásamt BlackBerry-þjónustu. Það þýðir að starfsmenn Actavis geta nú nálgast tölvupóst sinn í farsímanum hvar og hvenær sem er, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
Síminn hefur síðustu misseri unnið markvisst að því að styrkja stoðir sínar á erlendri grundu með það að markmiði að geta veitt viðskiptavinum sínum, sem margir hverjir eru í örum ytri vexti, áfram alhliða fjarskiptaþjónustu. Síminn hefur í þessum tilgangi samið við Orange Business Service um gagnaflutningsþjónustu til viðskiptavina sinna ásamt því að hafa keypt fjarskiptafyrirtækin BusinessPhones í Danmörku og Aerophone í Bretlandi. Bæði fyrirtækin sérhæfa sig í sölu á fjarskiptaþjónustu til lítilla og millistórra fyrirtækja.
Sævar Freyr Þráinsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs hjá Símanum, segist afar ánægður með samning Símans við Actavis. ?Actavis er framsækið alþjóðlegt fyrirtæki sem gerir miklar kröfur um þjónustugæði í fjarskiptum. Það er okkur hjá Símanum því mikið gleðiefni að stjórnendur Actavis hafi valið okkur sem samstarfsaðila næstu þrjú árin.?
Sigurður Óli Ólafsson, aðstoðarforstjóri Actavis, segir að farsímaþjónusta sé félaginu mikilvæg og í ljósi góðrar þjónustu Símans hafi félagið ákveðið að gera langtímasamning við félagið.