Ólöf Jónsdóttir, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs Íslandsbanka, og Ísleifur Orri Arnarson, forstöðumaður áhættustýringar hjá tryggingafélaginu VÍS, hafa gengið frá kaupum á 308 fermetra einbýlishúsi að Hringbraut 59 í Hafnarfirði. Kaupverð hússins nam 260 milljónum króna og nam fermetraverð því um 844 þúsund krónum.

Seljandi hússins er félagið KP Capital ehf., sem er í eigu Kristínar Pétursdóttur, varaformanns stjórnar Arion banka og fyrrverandi forstjóra Auðar Capital. Hún stofnaði Auði Capital ásamt Höllu Tómasdóttur sem nú er forseti Íslands.

Húsið, sem stendur á 1649,7 fermetra eignarlóð, var byggt árið 1959 og teiknað af Guðmundi Kr. Kristinssyni arkitekt. Samkvæmt fasteignaauglýsingu eru fjögur svefnherbergi og jafn mörg baðherbergi í húsinu.

Matthías Á Mathiesen fyrrum ráðherra bjó um áratugaskeið í húsinu og er húsið því stundum kallað Mathiesen húsið meðal rótgróinna Hafnfirðinga.

Hringbraut 59 stendur á 1649,7 fermetra eignarlóð.
© Skjáskot (Skjáskot)