Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, fyrrum atvinnumaður í golfi, er mikil áhugamanneskja um bíla. Hún var nýverið í viðtali við Mercedes Me tímaritið sem er gefið út af Mercedes-Benz.

Ólafía er eini Íslendingurinn til að komast á stærstu mótaröð í heimi, LPGA 2017. Hún hefur tekið hvíld frá golfinu undanfarið og stofnaði nýverið fyrirtækið Kristice.

Einbeitir sér að fjölskyldunni og nýja fyrirtækinu

„Golfið hefur verið í algjörri pásu hjá mér og ég hef verið að einbeita mér að fjölskyldunni og nýja fyrirtækinu mínu Kristice. Það er því aðeins öðruvísi tímabil í lífinu núna. Ég er búin að ferðast svo mikið síðustu ár að það er búið að vera notalegt að vera á einum stað í lengri tíma í senn,“ segir Ólafía.

„Fyrirtækið mitt heitir Kristice og leggur áherslu á hringrásarhagkerfi. Fyrsta hagkerfið sem Kristice byrjaði með var leiguhagkerfi þar sem hægt er að leigja lúxusvörur og handtöskur frá merkjum eins og Louis Vuitton, Gucci og YSL.

Viðskiptavinirnir eru ánægðir og eftir að hafa prófað einu sinni að leigja koma þeir vanalega aftur eftir að hafa uppgötvað hversu mikil snilld það er.“

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?

„Ég er mikill aðdáandi Mercedes-Benz bíla. Faðir minn, Kristinn Gíslason, er mikill aðdáandi Mercedes -Benz og það má segja að ég hafi á tímabili verið alin upp í Benz. Ég hef alltaf hrifist af gæðunum, flottri hönnuninni og góðum aksturseiginleikum.

Það er mikill elegans alltaf yfir Mercedes-Benz bílum. G-Class jeppinn er líklega með þeim eftirminnilegustu sem ég hef prófað. Hann er svo mikill töffari. Það er geggjað að keyra hann á hálendinu í erfiðum aðstæðum.

Ólafía við G-Class jeppann frá Mercedes-Benz.
Ólafía við G-Class jeppann frá Mercedes-Benz.

En uppáhaldsbíllinn sem ég hef átt er Mercedes Benz GLC. Það var fyrsti bíllinn minn sem við keyptum á Íslandi og eigum enn. Ég var ólétt árið 2020 og við að leita að fullkomna fjölskyldubílnum sem myndi líka hafa nægilegt pláss fyrir golfbúnaðinn minn og geggjað að hann er hybrid.

Ég hef fengið að prófa marga Mercedes-Benz bíla. Þeir eru allir uppáhalds, sumir láta þér líða sporty, aðrir eru mjög classy og svo stærri bílarnir og rafmagnsbílarnir eru ótrúlega smooth að keyra.“

Hver er eftirminnilegasta bílferðin?

„Það var þegar ég keyrði G-Class jeppann nálægt Krýsuvík að vetri til. Vinur minn, Jón Guðmundsson ljósmyndari, var með í för. Þetta var ævintýralegur og ótrúlegur akstur á stórum, töffaralegum jeppa.

Mér leið eins og í flugvél því hann er svo stór og mikill. Það er svo mikið og gott útsýni úr bílnum. Þetta var mjög flott leið sem ég ók á jeppanum en veðrið var mjög dramatískt og ekta íslenskt.

Ég var í myndatöku fyrir nokkra styrktaraðila og var að sýna og kynna íslenska náttúru í leiðinni. Það var svo kalt þennan dag að ég var orðin eiginlega blá að kulda. En þetta slapp allt saman vel til. Myndirnar komu bara vel út og allir voru ánægðir. Aksturinn á G jeppanum var líka mjög skemmtilegur og eftirminnilegur.“

Fréttin er hluti af lengra viðtali við Ólafíu Þórunni um bíla og Kristice sem birtist í Bílum, bílablaði Viðskiptablaðsins sem kom út á miðvikudaginn.