Sir Paul McCartney er orðinn fyrsti breski tónlistarmaðurinn til að gerast milljarðamæringur samkvæmt Sunday Times Rich List. McCartney, sem er 81 árs, jók auð sinn um 50 milljónir punda á síðasta ári með tónleikaferðalagi.

Elton John, Lloyd-Webber og David og Victoria Beckham voru einnig meðal þekktra nafna á listanum en allir á listanum þurfa að eiga minnst 350 milljónir punda.

Listinn í ár innihélt 350 einstaklinga og fjölskyldur sem áttu samanlagt 795,3 milljarða punda en það er hærri upphæð en allt hagkerfi Póllands. Robert Watts, sem heldur utan um listann, segir þó að listinn í ár bendi til þess að uppsveifla milljarðamæringa í Bretlandi sé á enda.

„Margir af frumkvöðlum landsins hafa séð auð sinn minnka og sumir af þeim ríku einstaklingum sem fluttu hingað eru að flýja land. Við verðum bara að bíða og sjá hvort við höfum náð hápunktinum og hvað það mun þýða fyrir hagkerfið okkar,“ segir Watts.

Auðkýfingurinn Jim Ratcliffe, sem keypti meðal annars Grímsstaði á Fjöllum árið 2016 á 780 milljónir króna, var í fjórða sæti á listanum en varð þó fyrir talsverðu fjárhagslegu tapi á þessu ári.