Proace City er með öflugan 50 kW rafmótor sem skilar 136 hestöflum. Drægnin er alls 280 km. Bíllinn er lipur og léttur í akstri og mér líður svolítið eins og ég sé að keyra nettan jeppling.

Aksturseiginleikarnir eru góðir í alla staði. Aflið er prýðilegt fyrir þessa stærð af sendibíl. Bíllinn er hannaður fyrir borgarumferðina og hann getur skotist um þröngar götur og lagt í þröng stæði. Þetta er því afar hagkvæmur sendibíll með fjölbreytta notkunarmöguleika.

Val á milli þriggja yfirbygginga og tveggja lengda

Hægt er að velja á milli þriggja yfirbygginga og tveggja lengda. Proace City kemur í tveimur lengdum, 4,4 metrar og 4,7 metrar, með 1,8 metra eða 2,2m löngu farmrými. Hann getur borið allt að 1 tonn og dregið 1,5 tonn og hægt er að koma fyrir tveimur euro brettum í farmrýmið.

Proace City hefur fjölda eiginleika á borð við Smart Cargo sem gera sendibílnum kleift að annast allar þarfir fyrir atvinnurekstur í borgarumhverfi. Það skilar aukinni hleðslulengd og burðargetu. Í lengri útgáfunni, þ.e. með löngu hjólhafi, er allt 3,4 m hleðslulengd og allt að 4,3 rúmmetra hleðslurými.

Flutningsgetan er mikil og meiri en maður heldur þegar horft er á þennan netta sendibíl. Hægt er að nota renniskilrúm og niðurfellanlegan sætisbekk aftur í til að skipta hratt á milli farþegaflutninga og hleðslurýmis.

Nett skrifstofa á hjólum

Innanrýmið er laglegt og ber keim af Toyota fólksbílum og skal engan undra. Stór TFT upplýsingaskjárinn gefur ökumanni allar upplýsingar um aksturinn, hleðslu rafhlöðunnar og orkunotkun sem og afþreyingu þar sem snjalllausnir eru í fyrirrúmi.

Boðið er upp á margmiðlunartengingar við Apple Carplay og Android Auto. Flatt gólf og sætisbekkur frammí bjóða upp á þægileg sæti fyrir þrjá. Innfellda borðinu á niðurfellanlega miðsætinu er hægt að snúa annaðhvort að farþega eða ökumanni. Það er því hægt að gera bílinn að nettri skrifstofu á hjólum ef maður vill. Snjallar lausnir eru í loftinu og auka á gott geymsluplássi.

Fjallað er um málið í sérblaðinu Atvinnubílar sem fylgdi Viðskiptablaðinu í vikunni.