Fyrsti rafbíll Honda var hinn netti og skemmtilegi Honda e sem vakti mikla athygli og e:Ny1 jepplingurinn fylgir nú í kjölfarið. Japanski bílaframleiðandinn er að sækja í sig veðrið hvað varðar rafbíla. Honda hefur gefið út að þeir muni koma með allt að tíu nýja rafbíla á markað í Kína fyrir árið 2027. Bílaframleiðandinn ætlar að hafa alla bílaflóru sína í rafmagni árið 2035.

Traustur grunnur Honda

Honda hefur teflt fram góðum og traustum bílum í gegnum tíðina og í flokki jepplinga hafa HR-V og CR-V verið vinsælir bílar hér á landi sem og annars staðar í heiminum. Honda hefur átt dyggan aðdáendahóp enda þykja bílarnir traustir og vel byggðir. Honda hefur einnig gert vel í framleiðslu á sportbílum og komið fram með S2000 og Civic sem eru báðir mjög sportlegir og stórskemmtilegir og akstursbílar. Smábíllinn Honda e kom eins og stormsveipur á markaðinn fyrir þremur árum og vakti gríðarlega athygli. Nú kemur Honda e:Ny1 fram á sjónarsviðið sem annar 100% rafdrifni bíll framleiðandans.

Lipur og þægilegur jepplingur

En að hinum nýja og rafmagnaða jeppling Honda e:Ny1 sem beið okkar á nýju og glæsilegu hóteli The Thief við höfnina í miðborg Ósló á stað þar sem sjóræningjar og smyglarar lögðu undir sig fyrr á öldum.

Honda e:Ny1 er byggður á HR-V jepplingnum en hönnun hans verið uppfærð til aðgreina hann sem rafbíl að sögn Honda. Þessi nýi jepplingur er svipaður að stærð og HR-V. Hinn nýi Honda e:Ny1 er með allt að 412 km drægni á rafmagninu. Bíllinn er prýðilegur í akstri. Stýringin er mjög fín og bíllinn liggur vel. Hann er lipur og þægilegur í alla staði. Aksturinn er hljóðlátur og það heyrist lítið sem ekkert veghljóð inn í bílinn þar sem ekið var um götur norsku höfuðborgarinnar og sveitirnar í nágrenni hennar.

Nánar er fjallað um Honda e:Ny1 í fylgiritinu Bílar sem fylgdi nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins á miðvikudag.