Kristján Ingi Mikaelsson sem stýrir fjárfestingasjóðnum MGMT Ventures og Þóra Karen Ágústsdóttir hafa keypt einbýli Guðmundar Marteinssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Bónuss, og eiginkonu hans, Ingibjargar B. Halldórsdóttur, við Hjálmakur í Garðabæ.
Samkvæmt fasteignaauglýsingu var húsið reist árið 2008 og teiknað af Sigurði Hallgrímssyni arkitekt en Hallgrímur Friðgeirsson sá um innanhússhönnunina.
Guðmundur Marteinsson og Ingibjörg B. Halldórsdóttir festu kaup á lúxusíbúð í Kópavogi í fyrra sem þau greiddu 190 milljónir fyrir.
Um er að ræða 380 fm eign með fimm svefnherbergjum og fjórum baðherbergjum.
Kristján Ingi og Þóra Karen greiddu 365 milljónir króna fyrir eignina samkvæmt kaupsamningi.
Kristján Ingi er stofnandi og eigandi MGMT Ventures ásamt Daníel Fannari Jónssyni.
Fjárfestingasjóðurinn hagnaðist um 106,6 milljónir króna á árinu 2023 en tekjur félagsins voru um 913 milljónir.
Eigið fé félagsins í árslok nam 274,9 milljónum og lagði stjórn til þess að greiddur yrði 12 milljóna arður til hluthafa á árinu en félagið greiddi út 45 milljónir á árinu á undan.