Veiðifélag Norðurár hefur samið við Rafn Val Alfreðsson um að hann sjái um sölu veiðileyfa í ána og hafi umsjón með henni næstu fimm árin. Samningur þessa efnis var samþykktur á félagsfundi í Munaðarnesi í gærkvöldi. Einar Sigfússon hefur séð um sölumál Norðurár undanfarin ár en í sumar var ljóst að ekki yrði áframhald á samstarfinu.

Guðrún Sigurjónsdóttir, formaður Veiðifélagsins, segir margir hafi sýnt því áhuga að koma að rekstri árinnar. „Ræddi stjórnin við marga aðila," segir hún. „Niðurstaðan var að semja við Rafn í Miðfjarðará um að taka að sér sölumálin. Við gerum ráð fyrir lítillega breyttu fyrirkomulagi og fækkum stöngum aðeins og stækkum veiðisvæði.

Rafn Valur, sem hefur um árabil verið með Miðfjarðará á leigu, segist spenntur fyrir verkefninu og stoltur yfir því trausti sem landeigendur við Norðurá sýni honum.

„Ég hef alla tíð lagt mikinn metnað í minn rekstur og það að Norðurá sé nú innan minna vébanda mun efla mig og félag mitt til að gera enn betur.  Hér er mikil saga og Norðurá á sér mjög stóran hóp aðdáenda þannig að ég er að taka við góðu búi. Við höfum fengið til liðs við okkur Brynjar Hreggviðsson sem er reynslumikill sölumaður og mun aðkoma hans styrkja okkur enn frekar."