Elín Hall hefur skipað sér sess sem einn af fjölhæfustu listamönnum landsins. Hún er þekkt bæði sem leikkona og tónlistarkona og hefur tekið þátt í metnaðarfullum verkefnum bæði á sviði og í kvikmyndum.

Eitt af hlutverkum Elínar á árinu var í kvikmyndinni Ljósbrot, sem var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Myndin var ein af opnunarmyndum hátíðarinnar og sýnd í flokknum Official Selection, Un Certain Regard.

Á hátíðinni klæddist Elín fatnaði úr haust- og vetrarlínu Chanel fyrir 2024-2025, þar sem hún hafði tryggt sér samning við tískuhúsið. „Ég var mjög heppin með það að fá samning við Chanel og var í svítunni þeirra í Cannes. Það var bara heill annar heimur sem ég get varla lýst. Eina sem ég get nefnt til að lýsa þessu er kvikmyndin Devil Wears Prada. Stéttaskipting milli starfsfólksins var augljós og alls konar sem ég hafði aldrei upplifað áður.“

Upplifun hennar af rauða dreglinum var krefjandi. „Við fórum nokkrum sinnum á rauðan dregil þar sem ljósmyndarar standa kannski 150 saman og öskra og öskra. Maður reynir að halda andlitinu, en er bara hræddur. Lætin frá myndavélunum eru ótrúleg.“

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.