Eins og svo víða í ferðaþjónustu hefur Raufarhólshellir verið lokaður frá því að samkomubann var sett á hér á landi og ferðalög lögðust af. Með útvíkkun á samkomubanni höfum við ákveðið að opna aftur fyrir gestum þann 8. maí og bjóða í sumar upp á góðan afslátt fyrir fjölskyldur sem ferðast innanlands.
„Eftir að við tilkynntum um opnun á betri kjörum í sumar hafa viðbrögðin verið hreint stórkostleg. Fyrirspurnum rignir inn og pantanir frá íslenskum fjölskyldum eru margfalt fleiri en við þorðum að vona. Við höfum nú þegar bætt við opnunartímann til að bregðast við þeim áhuga sem okkur er sýndur og erum við djúpt snortin yfir viðbrögðunum“ segir Hallgrímur Kristinsson framkvæmdastjóri Raufarhóls ehf, sem sér um reksturinn í Raufarhólshelli.
Hver ferð inn í hellinn tekur eina klukkustund og til að lágmarka samneyti á milli hópa í afgreiðslunni eru brottferðir í maí eingöngu í boði á tveggja tíma fresti. Þá hefur hámarksfjölda í hverjum hóp verið fækkað niður í 15 manns. Með þessu móti er auðvelt að halda tveggja metra reglunni á milli fjölskyldna/gesta.
Í maí verður eingöngu um helgaropnanir að ræða en áætlað er að hafa opið sjö daga vikunnar í júní – ágúst. Raufarhólshellir er einn lengsti og þekktasti hraunhellir Íslands. Hellirinn er staðsettur í Þrengslunum, á milli Reykjavíkur og Þorlákshafnar og er því aðeins í rúmlega hálftíma akstursfjarlægð frá Reykjavík.
Búið er að byggja upp frábæra aðstöðu á svæðinu. Lagðir hafa verið pallar og hlaðnir stígar inni í hellinum auk þess sem búið er að setja upp magnaða lýsingu sem m.a. hefur unnið til fjölda alþjóðlegra verðlauna sem og Lýsingarverðlauna Íslands 2018. Ferðir í maí undir leiðsögn verða sem fyrr segir á tveggja tíma fresti og hver ferð tekur klukkustund.
Í sumar verður boðið upp á 30% afslátt af miðaverði í hefðbundna ferð, börn undir 12 ára fá frítt og unglingar greiða hálft gjald. Hellirinn er nú sagður einstaklega tignarlegur eftir óvenju snjóþungan vetur þar sem m.a. hafi myndast í hellisgólfinu miklir ísdrönglar sem geri ferðina inn í hellinn jafnvel enn áhrifameiri.