Í árlegri samantekt Renault Group um rekstur bílaframleiðandans Renault á liðnu ári kemur fram að alls seldi framleiðandinn 1.577.351 fólks- og sendibíla á árinu 2024, eða 1,8% fleiri en 2023
Þennan árangur þakka stjórnendur m.a. sérstakri rekstraráætlun sem innleidd hefur verið smám saman á síðustu fjórum árum og gengur undir vinnuheitinu „The Renaulutionplan“.
Í tilkynningu frá Renault kemur fram að sala á rafmögnuðum bílum að hluta til (electrified vehicles) á Evrópumörkuðum hafi aukist um 20% og sala tvinnbíla (full-hybrid) um 30% sem skilaði framleiðandanum öðru sæti á þeim hluta markaðarins í Evrópu.
Þá jókst sala á hreinum rafbílum frá Renault (fólks- og sendibílum) um 9% á liðnu ári. Þann árangur er m.a. að þakka rafbílnum Renault 5 E-Tech Electric, sem nýlega var kjörinn „Evrópubíll ársins 2025“.
Alls hefur framleiðandinn fengið um tíu þúsund pantanir á R5 frá því að salan hófst og verður hann frumsýndur hjá BL í sumar. Einnig er góðum árangri að þakka mikilli sölu á litlum sendibílum (LCV án pallbíla), þar sem framleiðandinn er í forystu í Evrópu með rúmlega 15% hlutdeild.
Þar fara fremstir í flokki Kangoo, Trafic og Master, en alls seldi Renault ríflega 310 þúsund sendibíla í þessum stærðarflokki á síðasta ári. Von er á Master Electric til Íslands í vor.
Níu gerðir nýrra bíla kynntir 2024
Vöxtur Renault um 1,8% á árinu 2024 var 0,4% meiri en markaðarins í heild sem óx um 1,4%.
Renault kynnti meðal annars átta nýja eða uppfærða bíla á árinu, s.s. Scenic E-Tech electric, Rafale, Symbioz, Master, Renault 5 E-Tech Electric, Renault Duster, Kardian og Grand Koleos auk endurhannaðs Captur og seldi Renault alls 28 þúsund fleiri bíla 2024 saman borið við 2023 eða alls rúmlega eina milljón fólks- og sendibíla.
Þannig jókst sala framleiðandans í Evrópu um 3,3% á meðan markaðurinn óx um 1,7% og sem fyrr er helstu dráttarklára söluárangurs að finna í Bretlandi, Spáni, Ítalíu og Frakklandi sem eru meðal mikilvægustu markaða Renault í álfunni.
Renault gerir enn fremur ráð fyrir að frumsýning Renault 4 E-Tech Electric á þessu ári muni setja enn frekari kraft í bílasölu fyrirtækisins á árinu.