Það vita flestir í veiðiheiminum hver Gunnar Bender er. Segja má að hann hafi helgað líf sitt veiðinni en hann stofnaði sem dæmi Sportveiðiblaðið fyrir 42 árum með þeim Þresti Elliðasyni og Steingrími Steingrímssyni.

Það vita flestir í veiðiheiminum hver Gunnar Bender er. Segja má að hann hafi helgað líf sitt veiðinni en hann stofnaði sem dæmi Sportveiðiblaðið fyrir 42 árum með þeim Þresti Elliðasyni og Steingrími Steingrímssyni.

Sportveiðiblaðið kemur út þrisvar á ári og á dögunum kom einmitt nýtt blað út, þar sem fjallað er um ýmislegt áhugavert. Má nefna umfangsmikla veiðistaðalýsingu á Jöklu og áhugavert viðtal við veitinga- og veiðimanninn Jón Mýrdal, sem rekur Kastrup á Hverfisgötu.

Fáir jafn óspámannlega vaxnir

Nú er laxveiðin farin á fullt. Árnar eru að opna hver af annarri þessa dagana og veiðin farið ágætlega af stað. Gunnar hefur hin síðari ár verið þekktur fyrir spá mikilli þurrkatíð, sem þýðir auðvitað að ár verða vatnslitlar og veiðin strembin. Þessar spár hafa nú ekki alltaf gengið eftir hjá Gunnari en nú bregður svo við að hann spáir rigningarsumri. Í veiðiheiminum vita menn ekki alveg hvernig þeir eiga að taka þessum viðsnúningi hjá Gunnari. Telja sumir þessa spá hans ávísun á langvarandi þurrk.

Gunnar segist standa við þessa rigningarspá.

„Það verður allavega rigning næstu tíu daga. Það er stór misskilningur hjá veiðimönnum að ég hafi rangt fyrir mér í þessum spám. Menn eru líklega að ruglast á mér og Haraldi Eiríkssyni, sem hefur nánast aldrei haft rétt fyrir sér í þessum efnum. Ég þekki fáa sem eru jafn óspámannlega vaxnir og hann,“ segir Gunnar og hlær. Er Gunnar hér að vísa til Haralds Eiríkssonar, leigutaka Laxár í Kjós og Hítarár en þeir tveir eru góðir félagar.

Þegar Gunnar er spurður hvernig hann haldi að laxveiðin verði í sumar svarar hann: „Ég er þokkalega bjartsýnn. Þetta verður fínasta veiðisumar, maður vonar það allavega.“