Knattspyrnukappinn Cristiano Ronaldo og félagar hans í liðinu Al-Nassr í Sádí Arabíu fengu allir að velja sér BMW bifreiðar að gjöf nú á dögunum.
Þýski lúxusbílaframleiðandinn í Munchen gerði nýlega stóran samning við Al-Nassr liðið og þetta var hluti af þeim samningi.
Ronaldo valdi sér BMW XM Red Label sportjeppa sem kostar um 30 milljónir íslenskra króna.
Þetta er einn öflugasti BMW bíllinn en tengiltvinnvél með 4,4 lítra V8 bensínvél og rafmótor skilar bílnum alls 738 hestöflum.
Þetta er einnig fyrsti tengiltvinnbíllinn sem er framleiddur undir M-merkinu sem er sportbíladeild BMW. XM er mjög stór og stæðilegur sportjeppi og svipaður og þriggja raða X7 að stærð.
Ronaldo á mjög glæsilegan bílaflota en þar má nefna Bugatti Chiron, Ferrari 599 GTO, McLaren Senna, Lamborghini Aventador og Bugatti Veyron Grand Sport Vitesse.