Sigurður Gísli Pálmason, annar eigenda Eignarhaldsfélagsins Hofs, móðurfélags IKEA á Íslandi og í Eystrasaltsríkjunum, hefur fest kaup á tveimur íbúðum að Vatnsstíg 16-18 í Skuggahverfinu í miðbæ Reykjavíkur fyrir alls 373 milljónir króna.

Dýrari eignin er 174 fermetra íbúð á níundu hæð hússins. Sigurður Gísli greiddi 258 milljónir króna fyrir íbúðina og nam fermetraverð hennar því tæplega einni og hálfri milljón króna. Samkvæmt afsali fékk hann íbúðina afhenda í byrjun mars en kaupsamningur var undirritaður um miðjan febrúar.

Seljandi íbúðarinnar er Miðhraun ehf. en umrætt félag er í eigu landslagsarkitektsins Ingibjargar Kristjánsdóttur, eiginkonu fjárfestisins Ólafs Ólafssonar.

Sigurður Gísli er byggingunni að Vatnsstíg 16-18 ókunnugur en hann hefur átt 269 fermetra íbúð á sautjándu hæð hússins í rúman áratug. Samkvæmt fasteignaskrá HMS festi Sigurður Gísli kaup á íbúðinni í byrjun mars árið 2013. Fasteignamat íbúðarinnar nemur 224,4 milljónum króna en þó má ætla að markaðsvirði íbúðarinnar sé töluvert hærra.

Á 7% íbúða að Vatnsstíg 16-18

Auk kaupanna á fyrrnefndri 174 fermetra íbúð gekk Sigurður Gísli í lok október á síðasta ári frá kaupum á 144 fermetra íbúð á fyrstu hæð að Vatnsstíg 16-18. Kaupverð íbúðarinnar nam 114,9 milljónum króna, sem er 4,6 milljónum undir fasteignamati. Fermetraverð íbúðarinnar nam því tæplega 798 þúsund krónum.

Seljandi íbúðarinnar er R&B Properties ehf., sem er í eigu Brynjars Smára Þorgeirssonar.

Eftir fyrrgreind íbúðaviðskipti á Sigurður Gísli því þrjár íbúðir að Vatnsstíg 16-18. 42 íbúðir eru í byggingunni og á Sigurður Gísli þar af leiðandi 7% af íbúðum hússins.

Nánar er fjallað um Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér og fréttina í heild hér.