Kristín Morthens hefur vakið athygli á undanförnum árum fyrir falleg málverk sem einkennast af samspili áferðar, lífrænna forma og lita sem mynda eins konar sjónblekkingu. Hún vinnur mikið með abstrakt form og skapar verk sem tengja saman innra ferli listamannsins og ytra umhverfi.

Kristín viðurkennir að það hafi verið ákveðin áskorun að vera borin saman við föður sinn, listamanninn Tolla, sérstaklega á fyrstu stigum ferilsins. „Það var smá erfitt að þurfa að glíma við samanburðinn, en þess vegna var mjög mikilvægt fyrir mig að fara erlendis í nám þar sem enginn vissi hver pabbi minn var,“ segir hún. Hún útskýrir að þetta hafi gefið henni sjálfsöryggi og sjálfstæði sem listamaður.

Þrátt fyrir samanburðinn segir hún það að öðru leyti jákvætt að eiga föður sem starfar við sömu listgrein. „Pabbi er ótrúlegur málari og listamaður. Að sjá hvernig hann hefur byggt upp ferilinn sinn, nánast eins og fyrirtæki, hefur hjálpað mér ótrúlega mikið.“ Hún viðurkennir að nafnið hafi vakið athygli á verkum hennar til að byrja með og lítur á það sem mikil forréttindi. „Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið þessa athygli, en það var líka mikilvægt fyrir mig að sanna mig á eigin forsendum.“

Viðtalið við Kristínu Morthens er að finna í nýjasta tölublaði Eftir vinnu sem kom út í dag. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.