Samdráttur í bílasölu á síðasta ári nam um 42% miðað við sama tíma árið á undan. Kostnaður vegna rafbíla tók miklum breytingum í byrjun árs 2024 þegar ívilnanir vegna greiðslu á virðisaukaskatti féllu niður. Þá settu stjórnvöld á 6 krónu gjald fyrir hvern ekinn kílómetra fyrir hreina rafbíla og 2 krónur fyrir tengiltvinnbíla.

Benedikt Eyjólfsson, forstjóri Bílabúðar Benna, svarar spurningum um stöðuna á bílamarkaðnum.

Efnahagsumhverfið var þungt í fyrra, verðbólga og háir vextir. Eru fleiri skýringar á samdrætti í bílasölu árið 2024?

,,Auðvitað hefur efnahagsumhverfið og væntingar almennings þó nokkur áhrif á neyslu og því var viðbúið að samdráttur yrði á seinasta ári. Þessi samdráttur varð þó nokkuð meiri en við reiknuðum með en það má að rekja að hluta til breytinga á styrkjaumhverfi og álagningu á kílómetra gjaldi. Áhrifin voru ekki svo mikil í krónum talið en Íslendingar verða seint þekktir fyrir að þola vel skattheimtu og hringl með svona aukagjöld. Ég hef svo sem sagt það áður og segi þá hér aftur, það er alveg galið að breyta niðurfellingu á vsk korter í jól 2023 og setja á laggirnar styrktarkerfi sem fer með okkur 50 ár aftur í tímann,“ segir Benedikt Eyjólfsson, forstjóri Bílabúðar Benna.

Hvernig leggst nýja árið í þig og hvenær telur þú að bílasala taki við sér?

,,Nýja árið leggst afar vel í mig og höfum við náð góðum árangri með sölu á bæði bílum frá KGM og Porsche. Nýlega kynntum við Torres EVX frá KGM sem er fyrsti rafbíllinn með milljón kílómetra rafhlöðuábyrgð og svo auðvitað nýjan rafmagns Porsche Macan sem er alveg stórkostlegur bíll en báðir bílar hafa tekið vel við sér í forpöntunum og sölum. Þá öfum við einnig fundið fyrir auknum áhuga á dísel bílum sem skýrist að ákveðnu leyti af því að fólk sé að færa síg frá rafmagnsbílunum en við búum svo vel að eiga bæði Rexton og Musso sem eru fullvaxta jeppar og pallbílar með alvöru dísel vél. Ég tel að bílasala muni taka við sér að miklu leyti en þó er viðbúið að hún nái ekki metsölu á þessu ári heldur sé nær eðlilegu jafnvægi,” segir Benedikt.  

Hvað skýrir samdrátt í sölu rafbíla og hvernig heldur þú að salan muni þróast í ár?

,,Án vafa er það niðurfelling á VSK styrk sem er um að kenna. Það styrkjaumhverfi sem tók við er hvort tveggja verra í framkvæmd og ósanngjarnt en það má spyrja sig hvort fjölskyldufólk sem býr úti á landi og þarf stóran og fjórhjóladrifinn rafmagnsjeppa eigi ekki skilið að fá styrk til rafmagnskaupa einungis vegna þess að bílinn sem þau þurfa kosti yfir 10 milljónir króna.  Þrátt fyrir þetta erum við hjá Bílabúð Benna nokkuð brattir enda með mikið af nýjum rafmagnsbílum í boði og stefnum á þó nokkurn vöxt á nýju ári,“ segir Benedikt ennfremur.

Nánar er fjallað um málið í Bílar, sérblaði Viðskiptablaðsins um bíla. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.