Skoski stórleikarinn sem einna þekktastur var fyrir hlutverk sitt sem James Bond lést á heimili sínu á Bahamas eyjum í nótt, eftir langvinn veikindi. Connery, sem var sleginn riddaranafnbótinni Sir árið 2000 af Elísabetu drottningu Bretlands, var einna þekktastur fyrir að leika njósnara hennar hátignar, James Bond, með einkennisnúmerið 007, á árunum 1962 til 1971.
Hefur hann oft verið valinn besti Bondinn í könnunum, það er sá sem best náði að túlka hlutverk njósnarans. Hann fagnaði 90 ára afmæli sínu í ágúst síðastliðnum, en hann var giftur konu sinni, Micheline Roquebrune, sem var af frönsk-marakóskum ættum frá árinu 1975 til dauðadags.
Meðal annarra þekktra mynda hans má nefna Leitin að Rauða Október, eins og íslenskun myndarinnar eftir Tom Clancy sögunni The Hunt for the Red October var kölluð, sem og Indíana Jones myndinni Síðasta krossferðin sem og í hasarmyndinni The Rock.
Sir Sean Connery hlaut Óskarsverðlaun bandarísku kvikmyndaakademíunnar árið 1988 fyrir leik sinn sem írskur lögreglumaður í myndinni The Untouchables. Meðan fjölda annarra verðlauna sem hann fékk má nefna tvö BAFTA verðlaun bresku kvikmyndaakademíunnar auk þess að hann fékk þrjú Golden Globe verðlaun samtaka erlendra fréttamanna í Hollywood.
Sjálfstæðissinni í skattaútlegð
Connery var dyggur stuðningsmaður skosks sjálfstæðis og SNP, vinstrisinnaðs þjóðarflokkss Skotlands, sem vill slíta ríkjasambandinu við Bretland.
Hann gat þó ekki tekið jafnmikinn þátt í kosningabaráttunni fyrir þjóðaratkvæði um sjálfstæði Skotlands sem haldin var árið 2014, þar sem hann þurfti að takmarka hversu marga daga hann gæti dvalið í landinu af skattalegum ástæðum.
Vegna ásakana um að hann væri í skattalegri útlegð birti Connery árið 2003 skjöl um að hann hefði borgað 3,7 milljónir punda, sem á gengi dagsins í dag samsvarar 675 milljónum íslenskra króna á árabilinu 1997 og 2003.
Gagnrýnendur bentu á móti að ef hann hefði verið með viðvarandi búsetu í Bretlandi hefðu skattgreiðslur hans þurft að vera mun hærri. Jafnframt lenti Connery upp á kant við spænsk skattyfirvöld eftir sölu villu í landinu sem hann var að lokum sýknaður af.