Ísak Bergmann Jóhannesson, uppalinn Skagamaður, var seldur frá Norrköping til FC Kaupmannahafnar síðastliðið haust, en FCK borgaði tæpar 3 milljónir evra fyrir Ísak samkvæmt BT í Danmörku. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net fékk ÍA 20 prósent af söluupphæðinni og átti ÍA þannig að fá um 90 milljónir króna fyrir söluna.

Samkvæmt nýútgefnum ársreikningi knattspyrnudeildar ÍA nam hagnaður deildarinnar vegna sölu leikmanna 41,6 milljónum króna á árinu 2021. Ef gert er ráð fyrir því að ÍA hafi fengið 90 milljónir króna fyrir söluna á Ísaki, telst líklegt að félagið fái greitt frá FCK í raðgreiðslum. Það má enn fremur gera ráð fyrir því að nær allur hagnaður félagsins af sölu leikmanna á árinu 2021 komi frá sölunni á Ísaki.

Í ársreikningi knattspyrnudeildar ÍA segir einnig að söluhagnaður á leikmönnum hafi verið áttfalt meiri en gert var ráð fyrir, fyrir rekstrarárið. Þannig hafi félagið stefnt að um 5 milljóna króna söluhagnaði fyrir árið.