Bandaríski milljarðamæringurinn Bill Koch, einn af Koch-bræðrunum frægu, hefur ákveðið að setja átta þúsund vínflöskur úr vínsafni sínu, að verðmæti 15 milljónir dala, á uppboð í næsta mánuði.

Á vefsíðu Decanter segir að vínflöskurnar samanstandi af þekktum Búrgúndí- og Bordeaux-vínum og að þær verði seldar í gegnum uppboðshúsið Christie‘s í New York.

Uppboðið mun standa yfir í þrjá daga frá og með 12. júní nk. en Bill hefur safnað flöskunum í fleiri áratugi. Hann hefur áður selt flöskur úr safni sínu á uppboði, síðast árið 2016, og hefur einnig verið áberandi í baráttunni gegn fölsuðum vínum.

Meðal nokkurra goðsagnakenndra flaska sem verða á uppboðinu verður flaska af Mouton Rothschild frá 1945 og kassi af Petrus frá 1990. Ein flaska þessara beggja tegunda er metin á 38.000 til 50.000 dali.

Adam Bilbey, yfirmaður vína hjá Christie‘s á heimsvísu, hefur hrósað Koch fyrir dugnað sinn við að byggja upp eitt besta vínsafn sem finnst í dag.