Mercedes-Benz W 196 R Stromlinienwagen frá 1954 var seldur á uppboði í gær í Mercedes-Benz safninu í Stuttgart. Sotheby’s uppboðshúsið sá um uppboðið.

Söluverðið var 51,155 milljónir evra, eða 7,5 milljarðar króna, sem er næst hæsta söluverð á bíl sem er þekkt.

Mercedes-Benz W 196 R Grand Prix kappakstursbíll, undirvagnsnúmer 9, tók þátt í Ítalska kappakstrinum í Monza þann 11. september 1955, keyrður af Stirling Moss með rásnúmer 16. Stirling lauk ekki keppni en Juan Manuel Fangio sigraði keppnina á eins bíl.
© Mercedes-Benz AG (Mercedes-Benz AG)

Þegar uppboðshamrinum var loks slegið í borðið, hafði bíllinn náð verði sem gerir hann að verðmætasta Grand Prix kappakstursbílnum sem hefur verið seldur á uppboði.

Fáir kappakstursbílar hafa jafn sterkt aðdráttarafl og hinar frægu silfurörvar, sem réðu lögum og lofum í Grand Prix keppnum fyrir og eftir seinni heimsstyrjöldina.

W 196 R var sérstaklega hannaður fyrir nýjar reglur sem giltu frá 1954 um vélar með allt að 2,5 lítra slagrými og sannaði sig sem sigurstranglegasti bíllinn í höndum kappakstursgoðsagna á borð við Juan Manuel Fangio og Stirling Moss.

Nánar er fjallað um bílinn í Bílum, sérblaði Viðskiptablaðsins sem kemur út á miðvikudag.