Mjólkursamsalan (MS) hefur undirritað samning við Skýrr um viðamikla innleiðingu á Microsoft Dynamics NAV-lausnum fyrir starfsemi MS. Um er að ræða einingar sem snerta mörg svið starfsemi fyrirtækisins. Þar má nefna fjárhagsbókhald og kerfi fyrir laun, innkaup, reikninga, greiðslur, birgðir, viðskiptavini, starfsmenn og verkbókhald. Einnig er vert að tína til sérhæft mjólkurkerfi fyrir MS segir í fréttatilkynningu.

"Mjólkursamsalan er öflugur notandi upplýsingatækni í samræmi við þá stöðu fyrirtækisins að vera eitt fremsta framleiðslufyrirtæki landsins. MS gerir miklar kröfur til samstarfsaðila um áreiðanleika, hagkvæmni og öryggi. Skýrr hefur þróað margvíslegar sérlausnir fyrir Microsoft Dynamics, sem meðal annars henta vel framleiðslufyrirtækjum. Við erum því spennt fyrir að takast á við þetta krefjandi verkefni með MS," segir Þórólfur Árnason, forstjóri Skýrr.

Að sögn Guðbrands Sigurðssonar, forstjóra MS, réði það mestu um valið á Microsoft Dynamics NAV og Skýrr að lausnin er sveigjanleg, útbreidd hér á landi og miklir möguleikar á fjölbreyttum sérlausnum fyrir hendi hjá Skýrr. "MS leggur áherslu á fagmennsku samstarfsaðila og að þeir hafi öflugan hóp starfsfólks með sérþekkingu. Skýrr fellur vel að þessum markmiðum MS og við treystum þeim fyrir fyrsta flokks þjónustu," segir Guðbrandur í tilkynningunni.

Mjólkursamsalan er rekstrarfélag mjólkuriðnaðarins á Íslandi og í eigu rúmlega 700 kúabænda um land allt. Hlutverk MS er að taka við mjólk frá eigendum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir í takt við þarfir íslenskra neytenda. Félagið heldur úti öflugu dreifingarkerfi. MS rekur sjö starfsstöðvar í Reykjavík, Búðardal, Ísafirði, Blönduósi, Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi. Fjöldi starfsfólks er um 450.

Skýrr veitir atvinnulífinu alhliða þjónustu á sviði upplýsingatækni og hefur liðlega 200 starfsmenn, sem sinna þörfum um það bil 2.300 viðskiptavina. Meðal samstarfsaðila Skýrr í þekkingariðnaði eru Microsoft, Oracle, VeriSign og Business Objects. Þjónusta fyrirtækisins skiptist í hugbúnaðar- og rekstrarþjónustu. Starfsemi þess er vottuð samkvæmt alþjóðlega gæða- og öryggisstaðlinum ISO 9001. Skýrr er Microsoft Gold Certified Partner.