Það eru fáir Íslendingar sem geta heimsótt Edinborg og ekki orðið yfir sig hrifnir af fegurð, sögu og sjarma borgarinnar. Í tæplega tveggja klukkustunda flugferð getum við heimsótt kastala og drukkið viskí meðan hlustað er á skota í pilsi spila á sekkjapípur.

Borgin býður upp á ótal ævintýri fyrir ferðalanga sem geta notið sín allan ársins hring. Í ágúst fer fram stærsta listahátíð heims, Edinburgh Fringe Festival, en þar má finna hundruð, ef ekki þúsund, mismunandi lista-, tónlistar- og uppistandssýninga.

Yfir vetrartímann opnar hinn sígildi jólamarkaður við Princess Street þar sem ferðamenn geta sötrað glögg eftir að hafa verslað sér föt og jólagjafir hinum megin við götuna.

Ein af gersemum borgarinnar liggur hins vegar aðeins lengra frá miðborginni og finnst í verslunarmiðstöðinni Ocean Terminal í Leith. Það er skipið The Royal Yacht Britannia, fyrrum snekkja Elísabetar drottningar, sem situr við höfn verslunarmiðstöðvarinnar og er í dag starfrækt sem safn.

Sagan

Þann 16. apríl 1953 sigldi skipið Britannia fyrst út á haf frá skipasmíðastöðinni John Brown & Company við Clydebank, skammt frá skosku borginni Glasgow. Hópur fólks var þar samankominn við hátíðlega athöfn enda var hér á ferð ekkert venjulegt skip.

Elísabet Englandsdrottning stóð fyrir framan þegna sína og tilkynnti nafn skipsins í fyrsta sinn. „Ég nefni þetta skip Britannia…ég óska henni og öllum þeim sem sigla um borð í henni velgengni.“

Kvöldverðarsalurinn var mikið notaður í opinberum heimsóknum.
© Wikimedia Commons (Wikipedia)

Skipið Royal Yacht Britannia var 126 metrar á lengd og 17 metrar á breidd og hafði það verkefni að ferja bresku konungsfjölskylduna um höfin blá. Megintilgangur skipsins sneri að heimsóknum konungsfjölskyldunnar en það átti einnig að vera nothæft sem sjúkraskip á stríðstímum.

Ef til kjarnorkustyrjaldar kæmi átti það einnig að veita drottningunni og hertoganum af Edinborg skjól um borð í skipinu meðan það sat undan norðvesturströnd Skotlands.

Þessi varahlutverk Brittaniu voru sem betur fer aldrei nýtt og fengu sjóliðar skipsins því að einbeita sér að hátíðlegum konungsheimsóknum. Skipið öðlaðist meðal annars viðurnefnið alheimssendiherra Bretlands en á lífstíð sinni hafði það viðkomu í yfir 600 höfnum í 135 löndum.

Skál í botn

Skipið, eða snekkjan réttara sagt, skiptist í raun í tvennt og var fremri hlutinn notaður af sjóliðunum. Til marks um bresku stéttaskiptinguna var þeirri hlið einnig skipt niður í hólf fyrir liðsforingja, yfirforingja og almenna sjóliða.

Hvert hólf hafði einnig sinn eigin bar þar sem sjóliðar gátu slakað á og fengið sér drykk eftir erfiðan vinnudag. Það var í raun aldrei skortur á áfengi um borð en skipið var oft kallað drukknasta skip breska sjóhersins.

Stýriklefi skipsins var orðinn frekar gamall á endanum.
© Wikimedia Commons (Wikipedia)

Konungsfjölskyldan var þekkt fyrir að fá sér gin í hádeginu og fengu sjóliðarnir einnig skammt af áfengi á hverjum degi. Í gegnum aldirnar var hverjum og einum meðlimi breska hersins gefinn skammtur af rommi sem verðlaun fyrir erfiðisvinnu og til að bæta liðsanda. Því var oft blandað við sítrónusafa til að koma í veg fyrir skyrbjúg.

Árið 1970 var þessi hefð lögð niður en sjóliðar Brittaniu þurftu ekki að örvænta þar sem þeir fengu þess í stað þrjár bjórdósir á mann á hverjum degi. Reglan var hins vegar að hver og einn sjóliði þurfti að drekka allar dósirnar þann dag og var þeim bannað að gefa félögum sínum sinn skammt.

Blaðamaður Viðskiptablaðsins og höfundur, sem er jafnframt fyrrum leiðsögumaður á skipinu, frétti hins vegar af fyrrum sjóliðum að þeir ættu það gjarnan til að fela dósirnar sínar og spöruðu þær þar til skipið kæmi í land og drottningin væri farin frá borði.

Við tók heljarinnar veisla af hálfu sjóliðanna sem endaði stundum í slagsmálum við sjóliða annarra breskra herskipa sem fylgdu Britannia í höfn. Samkvæmt einum fyrrum sjóliða Brittaniu voru upptök slagsmálanna gjarnan upphróp frá sjóliðum herskipanna sem ýjuðu að samkynhneigð þeirra með því að kalla þá „Yachtie-Poofs“.

Siglandi glæsihöll

Aftari hluti Brittaniu var tileinkaður bresku konungsfjölskyldunni og er sá hluti skipsins því mun glæsilegri þegar kemur að húsgögnum og hönnun. Þar mátti finna píanó, veislusal og verönd þar sem fjölskyldan gat drukkið te og gætt sér á skonsum.

Skipið þurfti skiljanlega að sýna ákveðinn glæsibrag þar sem drottningin tók einnig á móti þjóðarleiðtogum og háttsettum embættismönnum sem komu um borð í hátíðlegan kvöldverð eða til að undirrita fríverslunarsamninga.

Svefnherbergi Elísabetar.
© Wikimedia Commons (Wikipedia)

Árið 1959 sigldi Britannia til Chicago í gegnum hina nýopnuðu siglingaleið Saint Lawrence frá Kanada. Hún varð þá fyrsti meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar til að heimsækja borgina og var Dwight D. Eisenhower meðal gesta um borð í skipinu. Gerald Ford, Ronald Reagan og Bill Clinton komu einnig um borð á komandi árum.

Margir leiðtogar komu ekki aðeins um borð í skipið við hátíðlegar athafnir heldur fengu sumir þeirra einnig að gista. Skipið var nýtt fyrir brúðkaupsferðir Anne og Mark Phillips árið 1973 og notuðu Karl og Díana einnig skipið fyrir sína brúðkaupsferð árið 1981.

Britannia við Reykjavíkurhöfn árið 1990.
© Wikimedia Commons (Wikipedia)

Þann 25. júní 1990 kom Elísabet Englandsdrottning meðal annars í opinbera heimsókn til Íslands. Hún kom til landsins með einkaþotu sinni en gisti um borð í Brittaniu, ásamt eiginmanni sínum og fimmtán manna fylgdarliði við Reykjavíkurhöfn.

Þegar Hong Kong var skilað aftur til kínverska meginlandsins árið 1997 sigldi Britannia alla leið til Kína til að sækja síðasta breska ríkisstjóra Hong Kong, Chris Patten, og ferja hann aftur heim til Bretlands.

Það var jafnframt seinasta ferð Britanniu en snekkjan var tekin úr notkun nokkrum mánuðum seinna, þann 11. desember 1997.

Komin á leiðarenda

Britannia hafði þjónað bresku konungsfjölskyldunni í 44 ár og sigldi tæplega milljón sjómílur. Samningar sem þénuðu fleiri milljarða punda fyrir bresku þjóðina voru undirritaðir um borð í skipinu sem á endanum varð eitt frægasta skip heims.

Skipið var þó ekki án andstæðinga en margir í Bretlandi töldu skipið vera tímaskekkju og sóun á opinberu fé. Það kostaði fleiri milljónir punda í rekstri á hverju ári og þegar leið á tíunda áratuginn lá fyrir að það þyrfti að skipta um dísilvélar skipsins sem voru komnar á aldur.

Britannia þjónaði bresku konungsfjölskyldunni í 44 ár.
© Wikimedia Commons (Wikipedia)

Árið 1994 tilkynnti breski Íhaldsflokkurinn, sem þá var við völd, að Britannia yrði tekin úr notkun þremur árum seinna. Umræður voru um að smíða nýja snekkju fyrir konungsfjölskylduna en á endanum var ákveðið að svo yrði ekki.

Brittania var 83. og jafnframt síðasta snekkjan sem var í eigu bresku konungsfjölskyldunnar en sú fyrsta hafði verið í eigu Karls II þegar hann tók við krúnunni árið 1660.

Í dag situr Britannia við Ocean Terminal og tekur á móti 390 þúsund ferðamönnum á hverju ári. Gestir geta gengið um allt skipið og séð krárnar, veisluborðin, eldhúsin og svefnherbergi konungsfjölskyldunnar. Það er einnig hægt að fá sér te og skonsur á efstu hæð skipsins, rétt eins og konungsfjölskyldan gerði þegar skipið var í notkun.