Tæknifyrirtækið Razer – sem framleiðir allt frá tölvumúsum til fartölva og stóla, aðallega fyrir tölvuleiki – kynnti á CES tækniráðstefnunni snjallgrímu með loftsíum, hátölurum, ljósum og sótthreinsandi geymslu. Gríman, sem gengur undir nafninu Project Hazel, er einnig gegnsæ svo hægt sé að sjá svipbrigði og lesa varir þess sem hana ber.
Í yfirlýsingu sem fyrirtækið sendi tæknimiðlinum The Verge um grímuna segir að meðal þeirra sem komi að hönnun hennar séu vísindamenn og sérfræðingar í heilbrigðismálum.
Stefna að N95 vottun
Gríman er enn á þróunarstigi, en fyrirtækið stefnir að því að hún fái svokallaða N95 vottun, sem merkir að hún síar út 95% allra loftagna, þar með talið kórónuveiruna SARS-CoV-2 sem veldur COVID-19 .
Til þess þurfa grímur að falla þétt að andliti notandans og vera loftþéttar, ólíkt þeim grímum sem flestir landsmenn þekkja, en til þess er mjúkt sílíkon á brúnunum. Razer fullyrðir að gríman sé þægileg í notkun þrátt fyrir að vera úr plasti og búin tæknibúnaði sem eflaust gerir hana þyngri en aðrar grímur. Til að tryggja gott loftflæði er gríman svo búin tveimur síum með virka loftræstingu, sem bæði sía loftið sem kemur inn, og koltvísýringinn sem notandinn andar frá sér.
Stillanleg ljós til lýsingar og skrauts
Síurnar tvær – sem staðsettar eru sín við hvora kinnina – eru í raun lykilatriði grímunnar; auk þess að sía loft eru þær búnar áðurnefndum hljóðnemum og hátölurum til að bera róm notandans í gegnum gagnsætt plastið sem gríman er úr. Við það nýtur Razer aðstoðar hljómtæknifyrirtækisins THX, sem hefur verið í eigu Razer frá 2016.
Razer er þekkt fyrir að skreyta svo til allar vörur sínar með stillanlegum ljósum, allt frá músamottum til hátalara og jafnvel tölvustóls, og Project Hazel er þar sem fyrr segir engin undantekning. Hvor sían/hátalarinn um sig er búin ljósum jafnt utan á sem innan. Innri ljósin lýsa upp andlit notandans í myrkri, en þau ytri eru einungis til sýnis, eftir því sem blaðamaður kemst næst. Öll ljósin er svo að sjálfsögðu hægt að stilla á 16,8 milljón mismunandi liti.
Útfjólubláir geislar sótthreinsa
Eins og gefur að skilja krefst slíkur búnaður orku, og í því skyni innihalda síurnar/hátalararnir endurhlaðanlegar rafhlöður. Bæði verður hægt að losa þær frá grímunni, en einnig mun henni fylgja hleðslubox, sem ekki aðeins hleður grímuna, heldur sótthreinsar með útfjólubláu ljósi.