Embla er nýtt, ókeypis aðstoðar-app frá sprotafyrirtækinu Miðeind. Appið gerir fólki kleift að tala við snjallsíma á íslensku, spyrja og fá svör. Emblu má sækja í Apple App Store og Google Play Store og hún virkar á flestum snjallsímum.
Viðskiptablaðið sagði frá því árið 2017 að gert hefði verið ráð fyrir að það færu 2,3 milljarðar í máltækniáætlun stjórnvalda, þar af 1,8 milljarðar frá stjórnvöldum og hálfur milljarður frá atvinnulífinu.
Embla getur svarað ýmsum tegundum spurninga, svo sem um opnunartíma verslana, veður og veðurspá, fólk og mælieiningar. Til dæmis má spyrja hana: Hvað er opið lengi í Melabúðinni? Hvað er langt í jólin? Hver er Vigdís Finnbogadóttir? Hvað segir Wikipedia um granít? Hvernig er veðrið í Borgarnesi?
Hún getur líka sagt hvað klukkan er, reiknað einföld stærðfræðidæmi, lesið upp fréttayfirlit og breytt upphæðum á milli gjaldmiðla.
Í Emblu er ítarleg virkni fyrir Strætó, en notendur geta spurt hana hvar og hvenær strætisvagnar stoppa, hvaða stoppistöð sé næst og hvaða vagnar stoppi þar. Þá hefur hún rauntímaupplýsingar um ferðir vagna og getur sagt hvort strætó sé seinn eða á undan áætlun.
Embla byggir m.a. á tækni sem þróuð hefur verið undir hatti fimm ára máltækniáætlunar stjórnvalda og Almannaróms. Engar auglýsingar eru í Emblu og farið er með gögn samkvæmt skýrri persónuverndarstefnu. Embla hefur verið í þróun hjá Miðeind undanfarið eitt og hálft ár. Miðeind sérhæfir sig í máltækni og gervigreind fyrir íslensku, en þar starfa nú átta manns.