Stafræna auglýsingastofan Sahara og eigendur alþjóðlegu ráðstefnunnar Social Media Week gengu nýverið frá samstarfssamningi sem veitir fyrirtækinu umboð til að halda ráðstefnuna á Íslandi. Eigendur Sahara eru að vonum ánægðir með samninginn en hjá fyrirtækinu er lögð mikil áhersla á miðlun upplýsinga og fróðleiks og opna umræðu um það nýjasta á sviði stafrænnar markaðssetningar.
„Social Media Week er ekki bara ein mikilvægasta ráðstefna heims í okkar fagi. Vefsíðan þeirra, socialmediaweek.org, er líka alveg frábær fréttaveita sem við hjá SAHARA höfum fylgst glöggt með síðan 2009, en hún er sérstaklega ætluð fagfólki sem starfar á mörkum fjölmiðlunar, markaðssetningu og tækni eins og við,“ segir Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri Sahara.
Upphaflega stóð til að Social Media Week yrði haldin í fyrsta sinn í Reykjavík í nóvember á þessu ári en vegna áhrifa COVID-19 hefur Sahara frestað viðburðinum til 2021. En í millitíðinni býðst áhugasömum að taka þátt í sameinaðri ráðstefnu SMW Los Angeles og SMW New York, fjarráðstefnunni #SMWONE.
#SMWONE fer fram á fjögurra vikna tímabili frá 5. – 28. maí en meira en 100 klukkutímum af efni verður streymt til þátttakenda víða um heim. Fjarráðstefnan státar af alls 300 fyrirlesurum, þar á meðal aðilum frá Facebook, Pepsico, Instagram, Google og FOX.
Eins ber að nefna frumkvöðulinn og samfélagsmiðlastjörnuna Gary Waynerchuk en hans aðkomu að #SMWONE er beðið af mikilli eftirvæntingu.
„Auk streymisins býðst þátttakendum að horfa á upptökur af efninu þegar þeim hentar og efla tengslanetið í gegnum netspjall og fjarfundi. Passinn veitir líka 12 mánaða aðgang að SMW Insider sem er heljarinnar gagnagrunnur með myndböndum frá fyrirlestrum og viðtölum Social Media Week við þekkta samfélagsmiðlafrömuði“ bætir Davíð við.
Áhugasamir geta lesið meira um #SMWONE á heimasíðu SAHARA, sahara.is. Þar má einnig nálgast afsláttarkóða sem virkjar 20% afslátt af ráðstefnupössum.