MOON veitingar og Emmessís hafa í sameiningu þróað nýja gerð af Ísblómi sem inniheldur súkkulaðirjómaís með kaffi og sörubotni og verður Ísblómið framleitt í takmörkuðu magni fyrir jólahátíðina í ár.

Frumkvöðlarnir og matreiðslumeistararnir Sóley Rós Þórðardóttir og Árdís Eva Bragadóttir stofnuðu MOON fyrir nokkrum árum fyrir veisluþjónustu en hafa samhliða því þróað sælkerakrása fyrir sérstök tilefni, eins og Valentínusardaginn og Konudaginn.

„Við ákváðum snemma á þessu ári að hafa samband við Emmessís til að athuga hvort fyrirtækið væri ekki til í að þróa með okkur nýja gerð af Ísblómi, en okkur langaði að hanna nýja tegund í flóruna sem yrði sérstaklega ætluð fyrir jólahátíðina í ár,“ segir Árdís.

Hún segir Emmessís hafa tekið vel í hugmyndina strax á fyrsta fundi og nú er afrakstur samstarfsins, sjálf uppskriftin, fullfrágengin. Prufuvörur hafa þegar verið framleiddar og er framleiðslan á leið í matvöruverslanir.