Erna Mist myndlistarkona hefur skotist fram á sjónarsviðið á síðustu mánuðum. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún þegar selt verk til Nahmads safnsins í New York. Þá hefur hún einnig getið sér gott orð á ritvellinum með heimspekilegum greinarskrifum, sem hafa hreyft við mörgum. Þessa dagana er hún að undirbúa útskriftarsýningu í Lundúnum. Í viðtali við Eftir vinnu segist hún skrifa og mála til að ná utan um heiminn.
Frá því að Erna var lítil hefur hún heillast af Jóhannesi Kjarval en segist ekki alveg vita af hverju.
„Það er eitthvað við þessi stóru verk þar sem hann blandar saman landslagi, fígúrum og draumum. Þetta verður einhverskonar veröld sem er ekki til nema í hans myndheimi og mér finnst það mjög heillandi.“
Hún segist þó ekki vera hrifin af öllum verkum Kjarvals en það eigi þó sennilega við um alla þessa stóru málara.
„Þeir mála kannski 500 verk yfir ævina en aðeins 20 þeirra verða meistaraverk.“
Þótt það sé ekki auðfundið að finna verk eftir Kjarval þá bendir Erna á að það sé ágætis Kjarvalssafn í aðalútibúi Landsbankans.
„Staðurinn minn til að skoða Kjarval verk var Landsbankinn, það er fyndið að það sé stærra Kjarval safn þar en á mörgum öðrum stöðum. Ég kíkti þangað stundum þegar það var opið hús.“
Nánar er rætt við Ernu Mist í blaðinu Eftir vinnu, sem kom út í dag. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.