Bíllinn sem var reynsluekið er Honda HR-V Advance, sem er með 1,5 lítra e:HEV Hybrid vél sem skilar 131 hestöflum. E:HEV vélin frá Honda er sparneytin að sögn framleiðandans, en uppgefin eyðsla er 5,4 l í blönduðum akstri og passaði það vel við reynsluaksturinn. Vélin keyrir á rafmagni að 30 km hraða en þá tekur bensínvélin við og nýtir sér auk þess rafmagnsmótorinn upp að 80 km hraða en eftir það keyrir hann eingöngu á bensíni. Bíllinn er framhjóladrifinn og hægt er að velja um þrjár akstursstillingar, Sport er fyrir kraftmikinn akstur, Normal fyrir þýðan akstur og Eco fyrir sparneytnari akstur. Honda gefur upp að HR-V sé 10,6 sekúndur upp í 100 km hraða en hvort það er í Sport-stillingunni eða annarri er ekki gefið upp. Viðbragðið var gott og óhætt að segja að kraftur sé í bílnum. Hámarkshraðinn er 170 km, sem er meira en nóg fyrir íslenska vegi.

Skemmtilegur í akstri

Honda HR-V er sportlegur bíll og skemmtilegur í akstri og upplifunin við að keyra hann hvort sem er á langkeyrslu sem í innanbæjarakstri mjög góð. Helst var að það væri smá hávaði í vélinni þegar hann er ræstur, en það er algengt í hybrid-vélum. Fjöðrunin er frekar stíf, sem hentar bílnum vel. Veghæðin er heilir 19 cm, sem bætir aðgengi í bílinn og gefur aukið öryggi þegar farið er út fyrir malbikið. Talandi um öryggi, þá er mikið lagt upp úr öryggisbúnaði bílsins. Hann kemur með blindpunktsaðvörun, radartengdri árekstursvörn og DWS-dekkjaþrýstingsvara auk LDW-akreinaeftirlits og KLAS-akreinaaðstoðar sem lætur ökumann vita þegar bílnum er ekið yfir á rangan vegarhelming. Auk þess eru nálgunarvarar að framan og aftan og bakkmyndavél. Í bílnum er líka svokallaður E-Call neyðarhnappur 112.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins frá 30. júní.