Mercedes-Benz framleiðir rafbíla sína undir vörumerkinu EQ (Electric Intelligence) og stendur fyrir gildunum tilfinning og greind (emotion and intelligence) sem eru ávallt ofarlega hjá Mercedes-Benz, að sögn þýska lúxusbílaframleiðandans sem staðhæfir einnig að við framleiðslu á EQ rafbílunum verður miðast við fallega hönnun, framúrskarandi aksturseiginleika, hagkvæmni og besta öryggi sem völ er á eins og Mercedes-Benz er þekkt fyrir í bílum sínum.

Sker sig úr flórunni

Hönnunin á EQB er svolítið sérstök þar sem kassalaga formið vekur eftirtekt. Stórir gluggarnir og há og bein þaklína veita bæði góða yfirsýn úr bílnum fyrir ökumann og farþega og auk þess góða höfuðhæð í innanrýminu. EQB sker sig þannig talsvert mikið úr sportjeppaflóru þýska lúxusbílaframleiðandans. Meðan bræður hans eru flestir sportlegri og straumlínulagaðri kemur EQB með töffaralegt lúkk sem minnir dálítið á hinn ofurtöffaralega G-Class. Þar spilar kassalaga hönnunin inn í þótt auðvitað sé himinn og haf á milli þessara tveggja Benza enda fáir sem komast með tærnar þar sem G-Class hefur hælana.

Innanrýmið í EQB er klassískt Mercedes-Benz með vandað og flott efnisval. Lofttúðurnar eru á sínum stað og gírstöngin er hægra megin í stýrinu og rúðuþurrkurnar vinstra megin. Widescreen mælaborðið er tilkomumikið. Sætin eru þægileg og fara vel með ökumann og farþega. Hægt er að velja um stemningslýsingu í innanrýminu sem er skemmtilegt.

Notadrjúgur fyrir stórar fjölskyldur

Farangursrýmið er stórt eða um 495 lítrar og plássið er allt að 1.700 lítrar með sæti í miðröðinni niðri. EQB býður upp á mjög gott aðgengi og sætisstaða ökumanns og farþega er há þannig að það er gott útsýni út úr bílnum. Bíllinn er með 20 cm veghæð.

Þá eru margar sniðugar lausnir varðandi geymslurými og ýmis þægindi sem koma sér vel fyrir stórar fjölskyldur. EQB er þannig tilvalinn ferðabíll og nýtist einnig mjög vel í útivistina og áhugamálin. Þriðja sætaröðin er rúsínan í pylsuendanum og það sem gefur bílnum auka plús að geta boðið upp á 7 manna bíl. Það kemur sér sannarlega vel fyrir stórar fjölskyldur.

Allt að 423 km drægni á rafmagni

Reynsluakstursbíllinn er EQB 300 með 4MATIC fjórhjóladrifinu. Bíllinn er búinn öflugum 66,5 kW rafhlöðum sem skila prýðilegu afli eða alls 228 hestöflum og togið er 390 Nm. Drægnin er uppgefin allt að 423 km. Hröðun úr kyrrstöðu í hundraðið er 8 sekúndur og hámarkshraðinn er 160 km/klst. sem er vel ásættanlegt fyrir 2,2 tonna bíl.

EQB með framhjóladrifi er með allt að 478 km drægni samkvæmt WLTP staðli. EQB er 4.684 mm að lengd, 1834 mm að breidd og 1667 mm að hæð. Bíllinn er byggður á hinum nýja MFA2 undirvagni frá Mercedes-Benz sem er einnig notaður í EQA sem frumsýndur var fyrir stuttu og fleiri rafbíla sem Mercedes-EQ smíðar og hannar.

Aksturseiginleikar hins nýja EQB eru mjög góðir eins og vænta má frá Mercedes-Benz. Bíllinn liggur vel og er mjúkur og fínn í akstri hvort sem ekið er á bundnu slitlagi eða malarvegi. EQB er þéttur og hljóðlátur og lítið sem ekkert veghljóð heyrist. EQB er í boði bæði með framhjóla- og aldrifi.

Vel búinn tækni

EQB er búinn MBUX margmiðlunarkerfinu og háskerpuskjá í „widescreen“ mælaborði bílsins. Þá er bíllinn í boði með nýju og háþróuðu Electric Intelligence leiðsögukerfi. EQB er einnig með snjallri hleðslutækni sem býður upp á ýmsa möguleika varðandi hleðslu. Hægt er að hlaða bílinn allt að 80% á 30 mínútum í hraðhleðslu en það tekur um 5 klukkustundir og 45 mínútur að fullhlaða í venjulegri heimahleðslustöð.

Verð á Mercedes-Benz EQB er frá 7.590.000 kr. en bíllinn sem reynsluekið var kostar 8.590.000 kr. Í dýrustu útfærslu EQB 350 er verðið 10.290.000 kr. en hann er afar vel búinn þannig.