Bíllinn er fyrsti rafmagnsbíllinn sem hannaður og smíðaður er af Suzuki og óhætt að segja að vel hafi tekist til. Suzuki Vitara hefur verið einn vinsælasti sportjeppinn á markaðnum í áraraðir og var því mikil eftirvænting að fá að reynsluaka þessum rafmagns arftaka hans. Hér er hins vegar um algjörlega nýjan bíl að ræða, hannaðan frá grunni af Suzuki.
Bílarnir sem reynsluekið var á Segula brautinni voru frumgerð framleiðslu og voru þeir prófaðir við ólíkar aðstæður.
Suzuki eVitara sportjeppinn kemur bæði sem fram- og fjórhjóladrifinn og voru þeir báðir prófaðar. Samkvæmt upplýsingum frá Suzuki umboðinu verður hann eingöngu í boði fjórhjóladrifinn hér á landi
Virkilega skemmtilegur bíll En aftur að reynsluakstrinum. Eftir stutta en fróðlega kynningu frá aðalhönnuðum Suzuki eVitara lá leiðin út á aksturbrautina sem skipt var upp í þrjú mismunandi svæði.
Fyrst fengu blaðamenn að reyna á bílinn þar sem líkt var eftir því að keyra yfir á. Bíllinn fór léttilega í gegnum þá þraut en keyrt var á um 45 km hraða í gegnum langan skurð sem fylltur var með drullu og vatni, sannkallaður drullupollur.
Síðan var haldið á 1,7 km langan aksturshring þar sem keyrt var eftir leiðsögn og hröðun, akreinavari og margt fleira var prófað. Þar fengu blaðamenn að keyra tvo hringi, bæði á fram- og fjórhjóladrifnum bílum. Óhætt er að segja að báðir bílarnir hafi komið skemmtilega á óvart, bæði hvað varðar góða hröðun og hversu mjúk keyrslan var. Hápunkturinn var þegar eVitara var reyndur á stuttri kappakstursbraut með fjölmörgum beygjum og lykkjum. Þar voru nokkrir hringir eknir og vel gefið í.
Sportlegir eiginleikar bílsins komu þar mjög á óvart og steinlá eVitara í kröppu beygjunum og var honum þó ekið á góðum hraða. Einnig var hröðunin mjög góð í þessari þraut og sannarlega skemmtilegt að fá tækifæri á að reyna á bílinn í þessum aðstæðum.

Eins og hannaður fyrir íslenskar aðstæður Líkt og áður sagði verður Suzuki eVitari eingöngu í boði fjórhjóladrifinn hér á landi enda er það sá bíll sem hentar íslenskum aðstæðum best.
Fjórhjóladrifinn eVitara er búinn 61 kWh rafhlöðu, með tveimur rafmótorum, einum á hvorum drifás og saman gefa þeir 181 hestafl. Drægni eVitara er 412 km og á hleðslustöð á að vera hægt að hlaða hann upp í 80% á aðeins 45 mínútum. Lengd bílsins er 4,275 mm, breiddin 1,800 mm og hæðin 1,635 mm. Veghæðin er 180 mm. En það voru ekki bara aksturseiginleikarnir sem komu á óvart heldur hversu vel hefur tekist til með hönnun innan rýmisins. Það er bæði nútímalegt og stílhreint, sætin góð og allt umhverfi ökumanns til fyrirmyndar.

Samfelldur skjár er fyrir ökumann, mælaborð og upplýsingaskjár. Þar er hægt að breyta á einfaldan hvaða upplýsingar eru sýnilegar og virkaði hann vel. Suzuki hefur einnig hannað nýtt app fyrir bílinn sem gefur enn meiri möguleika og er einfalt í notkun. Bíllinn verður í boði í GL og GLX útgáfum. Niðurstaðan er að Suzuki hefur hannað virkilega flottan og skemmtilegan bíl sem kom svo sannarlega á óvart, bæði hvað varðar aksturseiginleika sem og útlit. Verð liggur ekki enn fyrir en von er á fyrstu bílunum til landsins seinni hluta sumars.
Harðleiki og styrkur
Við hönnun Suzuki eVitara nýttu hönnuðir bílsins sér fjórhjóladrifstæknina úr Jimney og Vitara. Útkoman er að sögn Sumio Ono, aðalhönnuðar Suzuki eVitara, sérstök fyrir þennan flokk bíla. Suzuki nefnir hönnunina, High-tech and Adventure, þar sem hátækni rafbílsins rennur saman við kröftugan sportjeppan. Suzuki eVitara býður upp á allt sem góður sportjeppi á að hafa. Langt hjólhaf og stór dekk undirstika þennan karakter hans. Ono sagði blaðamönnum í Frankfurt að í útlitshönnun bílsins hafi verið reynt að búa til útlit sem sýnir harðleika og styrk bílsins.


