Það hefur verið beðið eftir Hongqi E-HS9 með talsverðri eftirvæntingu síðan jeppinn var fyrst kynntur á bílasýningunni í Beijing 2020. Bíllinn hefur verið mjög vinsæll í Noregi þar sem hann var kynntur fyrr á árinu. Hongqi hefur verið lúxusbíladeild kínverska bílaframleiðandans FAW frá árinu 1958. Það ár framleiddi fyrirtækið Rauða fánann (e. Red flag), sérstaka viðhafnarbifreið Maó formanns Zedong.

Hongqi E-HS9 er stór og stæðilegur lúxusjeppi og bæði með aldrifi og 100% rafdrifinn. Hann er svolítið amerískur á að líta og þar spilar kannski stærðin og útlitið inn í en hann er engu að síður kínverskur og vel úr garði gerður að mjög mörgu leyti. Jeppinn er vígalegur á velli með stórt og voldugt framgrill. Heildarútlit bílsins er kraftmikið í alla staði.

Í hundraðið á innan við 5 sekúndum

Hongqi E-HS9 kemur hingað til lands í sex og sjö sæta útgáfum sem boðnar eru í þremur búnaðarútfærslum: Comfort, Premium og Exclusive. Staðalbúnaður í grunngerðinni er vítt opnanlegt glerþak, raf stýrður afturhleri og þykkari bílrúður en venja er til að auka hljóðvist í farþegarýminu.

Útgáfurnar Comfort og Premium eru með sæti fyrir sjö manns (2x3x2) og Exclusive fyrir sex (2x2x2). Comfort-útfærslan er búin 84 kWh rafhlöðu sem skilar 435 hestöflum og 396 km drægni á meðan Premium og Exclusive hafa 99 kWh raflöðu og 551 hestafls rafmótor og er drægni beggja útgáfna 465 km.

Þótt þessi rúmgóði og stæðilegi lúxusjeppi sé um 2,6 tonn er snerpa allra gerða mjög mikil enda bíllinn aldrifinn og með togkraft frá 600 til 750 Nm sem skila hröðun úr kyrrstöðu í 100 km/klst. á innan við 5 sekúndum.

Lúxusjeppinn kostar frá 10.690.000 kr. miðað við Comfort útfærslu, 7 sæta. E-HS9 Exclusive 6 sæta gerðin, sem blaðamaður prófaði, kostar 13.390.000 kr.

Nánar er fjallað um Hongqi E-HS9 og upplifun blaðamanns af bílnum í Bílablaðinu, fylgiriti Viðskiptablaðsins.