Sigurður Hannesson hefur stundað laxveiði um langa hríð en fyrsta laxinn fékk hann á aldamótarárinu.
„Maríulaxinn veiddi ég á tvítugsafmælisdaginn árið 2000 í Fróðá á Snæfellsnesi, þeirri fallegu á," segir hann. „Laxinn veiddi ég á maðk en fljótlega fór ég að veiða eingöngu á flugu. Árin á eftir fór ég nokkrum sinnum á ári í veiði en síðan ég flutti aftur til Íslands eftir nokkur ár í Bretlandi hefur fluguveiði verið mitt helsta áhugamál."
Að veiða lax eða silung í góðum félagsskap frelsar hugann og gleður
Spurður hvað það sé sem heilli hann mest við stangaveiðina svarar hann: „Sennilega má best lýsa því með orðinu núvitund. Að skipta um umhverfi, hverfa frá áreiti hversdagsins, þegar það er mögulegt, og hugsa aðeins um að veiða lax eða silung í góðum félagsskap frelsar hugann og gleður."
Sigurður segir ekki langt síðan hann byrjaði að stunda silungsveiði.
„Síðustu árin hef ég farið í Laxá í Mývatnssveit og kynnst þar heillandi heimi silungsveiðinnar. Lax og silungur hegða sér á ólíkan hátt en ólíkt laxinum þá er silungurinn í leit að æti. Laxinn sækir gjarnan agnið en agnið þarf að sækja silunginn ef svo má að orði komast. Til nokkurrar einföldunar má segja að laxveiði sé tvívíð en silungsveiði þrívíð."
Heill ævintrýraheimur
Sigurður hefur veitt ansi víða en þegar hann er spurður hvort hann sé með einhverja á í sigtinu sem hann hafi aldrei veitt áður nefnir hann Miðfjarðará í Bakkafirði. Hann hafi heyrt talað vel um hana. Uppáhaldsá Sigurðar er aftur á móti Haffjarðará, sem er kannski ekki furða.
„Þar hef ég varið mestum mínum tíma þegar kemur að veiði. Í áratug var ég leiðsögumaður við ána og naut þess að fylgjast með lífríkinu á sama tíma og ég gerði mitt besta til að aðstoða veiðimenn. Maður upplifir veiðina á allt annan hátt í hlutverki leiðsögumanns en sem veiðimaður og lærir margt með því að fylgjast með og segja öðrum til. Sú reynsla hefur sannarlega nýst mér vel."
Af öðrum ám vil ég nefna Selá í Vopnafirði en þangað fer ég á hverju ári. Hofsá er stundum sögð vera hin fullkomna fluguveiðiá en rennslið þar hentar einstaklega vel og fjölbreyttar aðstæður gera hana áhugaverða. Kjarrá er einnig í miklu uppáhaldi en þessar þrjár ár eiga það sammerkt að þar er talsverð einangrun með litlu sem engu símasambandi. Það er eftirsóknarverð tilbreyting frá daglegu lífi þar sem síminn er aldrei langt undan með sínu áreiti.
Að lokum vil ég nefna Laxá í Mývatnssveit, sem er heill ævintýraheimur út af fyrir sig þar sem urriðinn getur leynst alls staðar í stórkostlegu umhverfi."
Nánar er rætt við Sigurð í sérblaðinu Veiði, sem fylgir Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur munu geta nálgast blaðið kl. 19.30 í kvöld með því smella á hlekkinn Blöðin efst á forsíðu vb.is.