Á undanförnum árum hafa risið upp á Íslandi nokkur gríðarstór íþróttahús sem öll eiga það sammerkt að rúma heilan knattspyrnuvöll. Þegar hafa verið reist fjögur hús upp á 50.500 fermetra og innan skamms hefjast framkvæmdir við tvö ný 8.800 fermetra hús á Akranesi og í Fjarðarbyggð. Þegar þau verða risin verða komnir 78 þúsund fermetrar og 6 knattspyrnuvellir í fullri stærð undir þak. Ekki er þá meðtalin Laugardalshöllin sem nú er unnið við að stækka, en þar er reyndar ekki um yfirbyggðan knattspyrnuvöll að ræða.
Til samanburðar við þessi gríðarstóru íþróttahús má geta þess að heildar gólfflötur verslanamiðstöðvarinnar Smáralindar í Kópavog sem opnuð var þann 10. 10. 2001 er 63 þúsund fermetrar. Það þarf því rúmlega fimm stórar knattspyrnuhallir til að jafna þann samanburð.
Reykjaneshöllin
Fyrsta fjölíþróttahúsið sem rúmar heilan knattspyrnuvöll er Reykjaneshöllin í Reykjanesbæ. Í kjölfarið kom Fífan í Kópavogi, Egilshöllin í Reykjavík og Boginn á Akureyri.
Reykjaneshöllin var tekin í notkun 19. febrúar 2000. Rættist þá langþráður draumur íþróttaiðkenda á Reykjanesi um fjölnota íþróttahús og ruddi bygging þessa húss brautina hér á landi fyrir önnur hús af sama toga. Reykjaneshöllin skiptist í 7.840 fermetra íþróttahús, og 252 fermetra þjónustuhús. Hægt er að skipta íþróttavellinum í tvo hluta með tjaldi, sem er mjög létt í meðförum og síðan má skipta frekar.
Íþróttasalur Reykjaneshallarinnar er 108 metrar að lengd og 72,6 metrar á breidd. Hæð hússins yfir hliðarlínum er 5,5 metrar og yfir miðju vallar er hún 12,5 metrar. Hann er hitaður upp með lofti og er þar góð loftræsting. Í þjónustubyggingin er fundarherbergi, fjórir búnings- og baðklefar ásamt annarri aðstöðu.
Fífan Kópavogi
Íþrótta- og sýningarhúsið Fífan í Kópavogsdal var vígt 17. maí 2002. Flatarmál Fífunnar er 10.100 fermetrar. Húsið er fulleinangrað og hiti er í gólfi þannig að hægt er að halda jöfnu hitastigi c.a. 10 gráður á Celsíus sem er þægilegt til æfinga og keppni. 150 natríum-og kvikasilfur lampar lýsa upp húsið og þegar full lýsing er í húsinu er hún 500 lúx. Hægt er að opna lúgur í lofti og á göflum til að loftræsta húsið.
Knattspyrnuvöllurinn er 105x68 m og er lagður gervigrasi frá Polytan af svokallaðri 3. kynslóð gervigrass, fyllt með sandi og gúmmíi til að líkja eftir eiginleikum venjulegs grass. Knattspyrnuaðstöðunni er hægt að skipta í 4 hluta og geta hópar, fyrirtæki og íþróttafélög leigt 1/4, 1/2 eða heilan völl undir æfingar og keppni. Nóg er af mörkum því 8 minnibolta mörk og 4 stór mörk eru í Fífunni. Frí lofthæð yfir hliðarlínum knattspyrnuvallarins er 7,20 metrar og um 13 metrar yfir miðjum vellinum.
Frjálsíþróttaaðstaðan skiptist í fjórar 100 metra hlaupabrautir og sex 60 metra hlaupabrautir ásamt langstökks- og stangarstökksaðstöðu. Frjálsíþróttaaðstaðan er lögð 13 mm þykku gerviefni frá Polytan. Í Fífunni er glæsileg tengibygging með sætum við borð fyrir allt að 70 manns. Í tengibyggingu er fundarherbergi og salernisaðstaða en klefar eru samnýttir með íþróttahúsinu Smáranum. Aðgengi fyrir fatlaða er gott því bæði er lyfta í húsinu og rafmagnsstýrðir hurðaropnarar í anddyri.
Egilshöll Reykjavík
Egilshöllin er lang stærsta íþróttahöll landsins. Fyrsta skóflustunga var tekin 16. mars 2001 og fyrsti áfangi knattspyrnusalur opnaður í apríl 2002. Húsið er um 23.000 fermetrar sem skiptist í 10.800 fermetra knattspyrnusal, 400 fermetra skólaíþróttasal, 3000 fermetra skautahöll, 800 fermetra skotæfingasvæði og 8.000 fermetra í ýmsa smærri sali skrifstofu, verslanir, þjónustu, gistirými og margt fleira.
Nýsir hf. keypt í fyrrasumar allt hlutafé í Borgarhöllinni hf., sem á og rekur íþróttamiðstöðina Egilshöllina í Grafarvogi. Borgarhöllin hf. er síðan rekin sem dótturfélag Nýsis hf., en seljendur voru Trésmiðja Snorra Hjaltasonar ehf. og JB Byggingarfélag ehf.
Nýsir starfar á sviði einkaframkvæmdar opinberrar þjónustu, fasteignastjórnunar og annarra rekstrarverkefna. Félagið hefur sérhæft sig í rekstri á íþróttamannvirkjum, skólamannvirkjum, leikskólum og mannvirkjum fyrir heilsutengda starfsemi. Má þar t.d. nefna Laugar í Laugardal.
Knattspyrnuvöllur
Í húsinu er 120x90 metra knattspyrnuvöllur, eða 10.800 fermetrar að flatarmáli. Mesta lofthæð er 20 metrar yfir miðlínu vallarins. Á vellinum er gervigras 105 x 68 fermetrar af vandaðri gerð Monoslide 20-50 frá Politan sem sérstaklega er gert fyrir knattspyrnu. í húsinu verður aðstaða fyrir um 2000 áhorfendur í sæti og um 1000 í stæði. Völlurinn stenst kröfur UEFA og uppfyllir A-staðal. Aðstaða til frjálsíþrótta er í salnum og hefur verið lagt Tartan hlaupabrautarefni. Í hliðarbyggingu við suðurhlið knattspyrnuvallarins er íþróttasalur með 6 metra lofthæð ætlaður til skólaíþrótta.
Vegna stærðar hússins hefur það einnig verið nýtt fyrir stórar fjöldasamkomur s.s. tónleikar og sýningar. Nefna má í því sambandi fyrirhugaða tónleika Iron Maiden 7. júní í sumar.
Sannkallað fjölnotahús
Gert er ráð fyrir gistiaðstöðu fyrir íþróttalið og aðra hópa í hliðarbyggingu við suðurhlið knattspyrnuvallarins. Mikil þægindi skapast af því að geta gist, matast, æft, keppt og stundað fjölbreytta afþreyingu allt á sama stað.
Í seinni áfangi íþróttamiðstöðvarinnar er 12.000 fermetra hliðarbygging á þremur hæðum vestan við knattspyrnuhúsið. Í þeirri byggingu var gert ráð fyrir líkamsræktarstöð af fullkomnustu gerð á neðstu og fyrstu hæð. Er aðstaðan upphaflega hugsuð bæði fyrir almenning sem og með sérstaka þrekþjálfun fyrir keppnisfólk í huga.
Skautasvell
Skautasvell í fullri stærð fyrir alþjóðlegar keppnir er á efstu hæð þverbyggingarinnar. Áhorfendaaðstaða fyrir um 300 áhorfendur ásamt búnings- og félagsaðstöðu verður við svellið.
Á neðstu hæðinni á að vera framtíðar innanhúsaðstaða fyrir allar greinar skotíþrótta sem mun m.a. nýtast Skotfélagi Reykjavíkur og öðrum skotfélögum. Skotsvæðið á að verða það fullkomnasta á landinu innandyri.
Í tengslum við anddyri hliðarbyggingarinnar á jarðhæð er gert ráð fyrir keilusal með átta til tíu brautum fyrir keppnismenn jafn sem almenna notkun auk aðstöðu fyrir billiard og pílukast.
Smærri íþróttasalir
Nokkrir smærri íþróttasalir eru á neðstu hæð eru ætlaðir fyrir júdó, karate, taikvondo og glímu auk sérbúinnar íþróttaaðstöðu fyrir börn. Á jarðhæð er einnig gert ráð fyrir smærri íþróttasölum fyrir dans, ballett, leikfimi og þolfimi ásamt funda og kennslusölum.
Gert er ráð fyrir aðstöðu í hliðarbyggingu fyrir þjónustufyrirtæki og skrifstofur sem tengist íþróttastarfsemi. Einnig er möguleiki á að vera með sýningarhald af ýmsu tagi í anddyri miðstöðvarinnar. Þar var einnig í upphafi gert ráð fyrir veitingasölu með útsýni fyrir knattspyrnuvöllinn á annarri hæð.
Boginn Akureyri
Nýja fjölnota íþróttahúsið á félagssvæði Þórs við Hamar á Akureyri var formlega tekið í notkun laugardaginn 18. janúar 2003. Það fékk nafnið Boginn. Brúttóstærð hússins er 9.505,6 fermetrar. Heildarkostnaður við byggingu á fjölnotahúsi og tengigangi er um 520 milljónir króna. Í kjallara Hamars sem er tengt Boganum með tengibyggingu er búningsaðstaða, böð og snyrtingar fyrir nýja íþróttahúsið.
Undirbúningur framkvæmda hófst í september árið 2000. Efnt var til alútboðs í maí 2001 og var tilboði Íslenskra aðalverktaka tekið og samningur undirritaður í október árið 2001. Vinna við sjálft húsið hófst vorið 2002 og var því skilað til verkkaupa í desember 2002. Íþrótta- og tómstundaráð leigir húsið af Fasteignum Akureyrarbæjar og var húsið afhent ÍTA í byrjun árs 2003.
Í Boganum er knattspyrnuvöllur með gervigrasi, en utan þess meðfram annarri langhlið vallarins er 5 metra breitt svæði, klætt Tartanefni, ætlað fyrir hlaupagreinar, en hinum megin vallarins er svæði fyrir áhorfendur. Þá er einnig annað svæði í húsinu klætt Tartanefni sem ætlað er fyrir stökkgreinar frjálsra íþrótta.
Ný hús á Akranesi og í Fjarðarbyggð
Þann 10. febrúar 2005 var boðin út hönnun og bygging samhliða á tveim fjölnota íþróttahúsum sitt hvoru megin á landinu. Annað húsið verður reist á Akranesi og hitt í Fjarðarbyggð. Húsin verða sömu gerðar og voru tilboð opnuð sameiginlega í fundarsal í íþróttamiðstöðinni á Jaðarsbökkum á Akranesi 22. febrúar.
Þessi hús eru að því leyti frábrugðin þeim húsum af þessari stærðargráðu sem áður hafa verið reist að ekki er gert ráð fyrir að þau verði upphituð. Í útboðsgögnum kom fram að verkið felst í hönnun á óupphituðu, óeinangruðu húsum. Þar er gert ráð fyrir knattspyrnuvöllum sem verða 68 m x 105 m og lagðir gervigrasi. Gert er ráð fyrir að í húsunum verði líka hlaupabraut og áhorfendapallar. Grunnflötur innra máls byggingar er að lágmarki 79m x 111m eða 8.769 fermetrar.
Gert er ráð fyrir að verktakar afhendi hálft húsið tilbúið til notkunar með bráðabirgðalokun eigi síðar en 1.september 2005, og að allri framkvæmdinni sé að fullu lokið 1. september 2006.
Sex tilboð bárust ú verkefnin frá Húsbygg ehf., Keflavíkurverktökum, Best Húsum ehf., Sveinbirni Sigurðssyni ehf., ÍAV hf. og Ístaki hf.
Hæsta aðaltilboðið var frá Ístaki og hljóðaði upp á tæpar 574 milljónir króna, en frávikstilboð vegna einangraðra húsa hljóðaði upp á tæpar 586 milljónir. Í báðum tilfellum gerði Ístak ráð fyrir að 5 milljóna króna afsláttur yrði veittur vegna hússins á Akranesi.
Lægsta aðaltilboðið var frá Sveinbirni Sigurðssyni ehf. og var upp á tæpar 324 milljónir króna. Frávikstilboð vegna einangraðra húsa hljóðaði upp á rúmar 453 milljónir króna. gerði fyrirtækið ráða fyrir að gefa rúmar 3 milljónir í afslátt vegna Akraneshússins.
Vekur athygli sá gríðarlegi munur sem var á hæstu og lægstu tilboðunum. Í lægsta tilfellinu kostar hvort hús um sig 162 milljónir króna en í hæsta tilboðinu kostar húsið 287 milljónir króna, eða nærri tvöfalt meira en í lægsta tilfellinu.
Byggt á grein í Viðskiptablaðinu 11. mars 2005.