Sveindís Jane Jónsdóttir, leikmaður Vfl Wolfsburg í Þýskalandi og íslenska landsliðsins, mun gefa út barnabók næstkomandi laugardag 28. október. Bókin ber heitið Sveindís Jane – saga af stelpu í fótbolta.
Í tilkynningu segir að bókin feli í sér hvatningu til að stunda reglubundna hreyfingu, eltast við drauma og stökkva á tækifæri þrátt fyrir ýmsar áskoranir. Hún segir mikilvægt að efla sjálfsmynd ungmenna, hvetja þau áfram og stuðla að jákvæðum samskiptum.
„Það er einlæg von mín að bókin sem ég skrifaði ásamt útgefanda mínum verði börnum hvatning til að láta að sér kveða í íþróttum. Ég sem dæmi hóf ekki að æfa fótbolta fyrr en ég var 9 ára. Saga mín í fótboltanum er saga stelpu af Reykjanesi sem var send í markið þar sem enginn hafði trú á mér úti á vellinum. Það átti eftir að breytast og fljótlega eignaðist ég draum um að ná langt í heimi knattspyrnunnar.“
Sveindís spilar nú með einu sterkasta félagsliði heims og hefur staðið í víglínu íslenska landsliðsins. Bókin segir þá frá sögu Sveindísar með skáldlegu ívafi.
„Sveindís er góð fyrirmynd innan vallar og utan. Hún hefur unnið hylli margra helstu sparkspekinga heims fyrir ógnarhraða og marksækni. Ekki síður hefur hún unnið hylli aðdáenda sinna með einlægri og fallegri framkomu,“ segir Sæmundur Norðfjörð hjá LOKA.