Nordic Entertainment Group (NENT Group), móðurfélag streymisveitunnar Viaplay, hefur tryggt sér sýningarréttinn af Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu, frá 2021/2022 tímabilinu, í samstarfi við Sýn. Samningurinn er til þriggja ára og hefur það í för með sér að NENT Group deilir einkarétti sínum til sýninga frá leikjum Meistaradeildar Evrópu með íslenska ljósvakamiðlinum. Umrætt fyrirkomulag nær einnig til sýninga á Íslandi frá leikjum Evrópudeildarinnar og nýrrar keppni sem hefur verið nefnd Europe Conference League. NENT Group og Sýn greina frá þessu hvor í sinni fréttatilkynningunni.

Umrætt fyrirkomulag þekkist víða um heim og sem dæmi má nefna að í Noregi deila NENT Group og TV2 sýningarrétti Meistaradeildar Evrópu.

„Frá og með 2021 til ársins 2024 mun Viaplay á Íslandi bjóða uppá meira en 60 beinar útsendingar frá leikjum Meistaradeildarinnar á hverri leiktíð. NENT Group og Sýn munu hafa fyrsta val leikja í 16 liða úrslitunum, átta liða úrslitunum, undanúrslitin. NENT Group sýnir úrslitin 2021/2022, úrslitin árið 2022/2023 verða sýnd á Sýn og munu úrslitin vera sýnd á báðum veitum árið 2023/2024. NENT Group og Sýn munu deila íslenskum einkarétti til sýninga á Evrópudeildinni og Evrópudeild II á sama hátt,“ segir í tilkynningu NENT Group.

„Það er Stöð 2 Sport mikið ánægjuefni að geta boðið áfram upp á úrvalsefni fyrir sína áskrifendur. Meira en 100 leikir Meistaradeildarinnar, Evrópudeildarinnar og Conference League verða sýndir árlega á Stöð 2 Sport og þeim gerð ítarleg skil í öruggum höndum færustu lýsenda og sérfræðinga landsins í vinsælustu íþrótt heims,“ segir í tilkynningu Stöðvar 2 Sport.

„Það er ánægjulegt að ná að tryggja áframhaldandi útsendingar og innlenda þáttagerð tengdri Meistaradeildinni, Evrópudeildinni og svo spennandi nýjungar, Conference League, þar sem íslensk félagslið geta mögulega verið þátttakendur. Samstarfið við Viaplay er í takt við þróun víða um heim þar sem algengt er að sýningarréttum sem þessum sé deilt. Stöð 2 Sport hefur útvíkkað ýmiskonar samstarf undanfarið og selur t.a.m. í dag aðgang að NFL Game Pass á frábæru verði og fljótlega mun samskonar samstarfi við NBA vegna NBA League Pass verða ýtt úr vör. Þessu fylgir svo fjölbreytt innlend dagskrárgerð í ýmsu formi tengdum útsendingum," er haft eftir Eiríki Stefáni Ásgeirssyni, forstöðumanni Stöðvar 2 Sport, í tilkynningu.

„Viaplay heldur áfram að móta landslag streymisveita á Íslandi með því að bæta við hágæða íþróttaafþreyingu, ásamt ört stækkandi sjónvarpsseríum og kvikmyndaefni. Að tryggja einkarétt til sýninga á UEFA Evrópsku úrvalsdeildunum næstu þrjú árin er mikilvægt skref og er enn einn áfanginn í okkar einstaka langtímasambandi við UEFA. Þetta eru frábærar fréttir fyrir íslenskt íþróttaáhugafólk," segir Anders Jensen, forstjóri NENT GROUP, í tilkynningu félagsins.